Handbolti

Öruggt hjá Kiel en Flensburg gerði jafntefli og Magdeburg tapaði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Atlason.
Arnór Atlason. Mynd/Nordic Photos/Getty
Kiel vann léttan ellefu marka sigur á GWD Minden í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld en það gekk ekki alveg eins vel hjá hinum Íslendingaliðunum, SG Flensburg-Handewitt og Magdeburg. Flensburg tókst þó að tryggja sér jafntefli í lokin en tapaði engu að síður fyrsta stigi sínu á tímabilinu.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 3 mörk og Aron Pálmarsson var með 2 mörk þegar Kiel vann 37-26 heimasigur á GWD Minden. Kiel var 15-10 yfir í hálfleik. Kiel hefur unnið þrjá fyrstu leiki sína í þýsku úrvalsdeildinni en á leiki inni vegna þátttöku sinnar i Heimsmeistarakeppni félagsliða á dögunum.

Arnór Atlason skoraði eitt mark fyrir Flensburg-Handewit þegar liðið gerði 25-25 jafntefli á útivelli á móti HSV Hamburg. Arnór kom Flensburg í 22-20 þegar 11 mínútur voru eftir en HSV svaraði með þremur mörkum í röð og komst aftur yfir. Daninn Thomas Mogensen tryggði síðan  Flensburg jafntefli með sínu sjöunda marki. Danirnir skoruðu 18 af 25 mörkum liðsins í kvöld því Lasse Svan Hansen skoraði 7 mörk og Anders Eggert var með 4 mörk.

Björgvin Páll Gústavsson og félagar í Magdeburg töpuðu 24-29 á útivelli á móti TuS N-Lübbecke en Björgvin Páll var á bekknum eins og oft áður á þessu tímabili. Magdeburg var 12-11 yfir í hálfleik og staðan var 21-21 þegar aðeins 11 mínútur voru eftir af leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×