Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Fram 31-24

Benedikt Grétarsson í DB Schenkerhöllinni skrifar
Bikarmeistarar Hauka hófu leiktíðina með öruggum sigri á reynslulitlu liði Fram. Staðan í hálfleik var 20-11. Haukum var spáð góðu gengi í vetur og þeir stóðu heldur betur undir væntingum í þessum leik.

Eins og svo oft áður var það vörn og markvarsla sem lagði grunninn að sigri Hauka en breiddin í liðinu nýttist afar vel og allir leikmenn lögðu sitt á vogarskálarnar.

Fyrri hálfleikur byrjaði ágætlega fyrir gestina og ungir leikmenn þeirra virkuðu sprækir og áræðnir. Fljótlega fór þó að bera á getumun liðanna og reynslumiklir Haukar keyrðu á ungt lið Fram við hvert tækifæri.

Boltinn gekk ágætlega í sókninni hjá heimamönnum og bakvið sterka vörn stóð Aron Rafn vaktina með miklum ágætum. Munurinn jókst hægt og bítandi og þegar liðin gengu til búningsherbergja leiddu Haukar með níu mörkum 20-11.

Síðari hálfleikur bar þess merki að bæði lið vissu að úrslitin voru ráðin. Framarar eiga hrós skilið fyrir að gefast ekki upp í erfiðri stöðu og þeir héldu Haukunum virkilega við efnið.

Þegar gestirnir voru búnir að minnka muninn í 5 mörk, var Aroni Kristjánssyni þjálfara Hauka nóg boðið, tók leikhlé og barði sína menn aftur í gang. Haukar kláruðu leikinn á góðum nótum, ekki síst fyrir tilstilli Árna Steins Steinþórssonar og Adams Hauks Baumruk og unnu leikinn að lokum sannfærandi með sjö mörkum, 31-24.

Liðsheildin var feikisterk hjá Haukum en áðurnefndir Árni og Adam áttu flottan síðari hálfleik. Sveinn Þorgeirsson var frábær í fyrri hálfleik og Freyr Brynjarsson er alltaf traustur. Aron Rafn varði ágætlega, sérstaklega í fyrri hálfleik.

Framarar telfdu fram mörgum ungum leikmönnum og þeir áttu fína spretti inn á milli. Það veikti liðið umtalsvert að Ægir Hrafn Jónsson gat ekkert leikið vegna meiðsla og Jóhann Gunnar Einarsson var greinilega lemstraður og spilaði lítið. Ólafur Magnússon vakti athygli fyrir góða nýtingu í vinstra horninu og Þorri Björn Gunnarsson sömuleiðis í hægra horninu.

Aron Kristjánsson: Ánægður með margt í okkar leik

Aron Kristjánsson var nokkuð sáttur eftir leikinn.

„Við vorum að spila mjög sannfærandi í fyrri hálfleik en duttum aðeins niður á kafla í síðari hálfleiknum. Það getur verið erfitt að halda einbeitingu með svona gott forskot en við kláruðum þetta eins og menn.“

Aron var að vonum ánægður með innkomu yngri leikmanna.

„Adam og Árni koma virkilega ferskir inn á tímapunkti þar sem við vorum kannski ekki að spila sem best og ég er eðlilega ánægður með það.“

Freyr Brynjarsson: Við vildum bæta fyrir síðasta leik

Reynsluboltinn Freyr Brynjarsson var traustur að vanda í liði Hauka.

„Við undirbjuggum okkur vel fyrir þennan leik og vorum staðráðnir að bæta fyrir lélegan leik okkar gegn HK. Við vissum að í liði Fram eru margir fínir leikmenn og þeir eiga hrós skilið fyrir fínan seinni hálfleik.“

Freyr var ekki í neinum vafa hvað skóp sigurinn.

„Vörnin var flott á löngum köflum og þannig viljum við spila handbolta.“

Einar Jónsson: Frammistaðan í fyrri hálfleik ekki boðleg.

Einar Jónsson, þjálfari Framara gat séð neikvæða og jákvæða punkta í leik sinna manna.

„Við vorum skelfilegir í fyrri hálfleik og frammistaðan engan veginn boðleg. Síðari hálfleikur var miklu betri hjá okkur og ungu strákarnir spiluðu bara nokkuð vel, sérstaklega sóknarlega.“

Einar gerir sér grein fyrir því að ungir leikmenn Fram eigi eftir að spila stórt hlutverk í vetur.

„Þessir guttar eiga eftir að spila helling og þeir sem eiga að teljast reynslumeiri og líklega betri leikmenn verða bara að berjast fyrir sæti sínu í liðinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×