Handbolti

Rúmenska kvennaliðið endurheimtir stórstjörnu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christina Neagu.
Christina Neagu. Mynd/AFP
Rúmenska landsliðskonan Christina Neagu spilaði langþráðan leik á miðvikudaginn þegar hún snéri aftur eftir eins árs og sjö mánaða fjarveru vegna meiðsla. Neagu spilaði sinn fyrsta leik í 605 daga þegar lið hennar Oltchim Valcea vann Brasov.

Christina Neagu var með eitt mark og 3 stoðsendingar í leiknum sem Oltchim Valcea vann 34-23. Neagu hefur sett stefnuna á það að vera með rúmenska landsliðinu á EM í Serbíu þar sem Rúmenía er einmitt í riðli með íslensku stelpunum.

Christina Neagu meiddist illa á öxl tímabilið 2010 til 2011 og var ekkert búin að spila síðan þá. Hún var kosin besta handboltakona heims árið 2010 og hefur skorað 455 mörk í 111 leikjum fyrir rúmenska landsliðið.

Neagu var frábær á síðasta Evrópumóti þar sem hún var bæði markahæst (53 mörk) og gaf flestar stoðsendingar allra leikmanna (36). Rúmenska liðið náði bronsinu eftir 16-15 sigur á Danmörk í leiknum um þriðja sætið.

Ísland mætir Rúmeníu í öðrum leik sínum á Evrópumótinu en áður munu íslensku stelpurnar reyna sig á móti Svarfjallalandi. Síðasti leikur íslenska liðsins í riðlinum er síðan á móti Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×