Handbolti

Viborg tapaði fyrir toppliðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Óskar Bjarni Óskarsson og lærisveinar hans í danska úrvalsdeildarfélaginu Viborg töpuðu í kvöld fyrir Kolding, toppliði deildarinnar.

Kolding hafði tveggja marka forystu í hálfleik, 11-9, og vann að lokum öruggan sigur, 27-21. Orri Freyr Gíslason skoraði eitt mark fyrir Viborg sem er í ellefta sæti deildarinnar með þrjú stig að loknum sex umferðum.

Kolding er enn með fullt hús stiga en liðið heitir nú fullu nafni KIF Kolding Köbenhavn og er að hluta byggt á rústum AG Kaupmannahafnar sem fór á hausinn í sumar.

Guðmundur Árni Ólafsson og félagar hans í Bjerringbro/Silkeborg höfðu svo betur gegn Nordsjælland, 35-26. Liðið er í öðru sæti með tíu stig en Guðmundur Árni skoraði eitt mark í leiknum.

Mors-Thy, lið Einars Inga Hrafnssonar, tapaði fyrir Team Tvis Holstebro, 29-27. Mors-Thy er í sjötta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×