Sport

Ásgeir farinn að skjóta í Þýskalandi

Ásgeir Sigurgeirsson, landsliðsmaður í skotfimi og Ólympíufari, hefur verið ráðinn til þýska skotfélagsins Groß und Kleinkaliberschießen Hannover. Ásgeir fékk tilboð frá þremur félögum sem keppa í Þýsku Bundesligunni, tveimur í fyrstu deild og einu í annari.

Hann gerði samning við Groß und Kleinkaliberschießen Hannover í annari deild þar sem það félag er í baráttu um að komast í fyrstu deild og bauð honum stöðu sem skotmaður númer eitt.

Þýska Bundesligan í skotfimi er ein sterkasta landskeppni í skotfimi sem haldin er. Í þýska Skotíþróttasambandinu eru yfir 1.200.000 iðkendur.

Keppt er í tveim deildum. Hvorri deild er skipt í fimm héruð og í hverju héraði eru átta lið, hvert með átta skráða keppendur, en fimm keppa hverju sinni, þetta þýðir að í hvorri deild eru 40 lið. Keppnin er ekki kynjaskipt og keppa bestu skyttur hvers félags á jafnréttisgrundvelli.

Hvert lið má eingöngu notast við einn erlendan keppanda í hverri keppni en má hafa fjóra á samning. Hverju liði er stillt upp eftir styrkleika frá eitt til fimm þar sem að sterkasti skotmaður er númer eitt.

Keppnin er liðakeppni með "duel" fyrirkomulagi, þar sem að skotmenn númer eitt í hvoru liði keppa við hvorn annan og svo koll af kolli, þannig að hvert lið á mest möguleika á fimm sigrum í hverri keppni.

Á keppnisdegi keppir hvert lið við tvö önnur í sínu héraði og eftir fjórar þannig keppnir er haldið til úrslita þar sem að Þýskalandsmeistarar í hvorri deild ákvarðast og hvaða lið falla í deild eða fara upp. Hver keppni er 40 skot, skotin á 50 mínútum.

Fyrstu keppnum Ásgeirs er lokið, þar sem að hann sigraði andstæðinga sína með yfirburðum, og er lið hans í efsta sæti í Norður-héraði með sigurhlutfall 9-1.

Bundesligan stendur yfir frá október til febrúar og í beinu framhaldi hefur Ásgeir keppni í alþjóðamótaröð ISSF fram í ágúst, og einnig mun hann taka þátt á Evrópumeistaramóti í lok febrúar.

Alþjóðleg staða Ásgeirs í Ólympískri skotfimi hefur aldrei verið betri. Hann er nú í 22. sæti á heimslistanum í loftskammbyssu karla og í 16. sæti á Evrópulistanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×