Handbolti

Dagur: Íslenskir þjálfarar hafa rétta viðhorfið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Dagur Sigurðsson var í viðtali hjá Hirti Hjartarsyni í Boltanum á X-inu í morgun og ræddi um góðan árangur íslenskra þjálfara í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta.

Dagur þjálfari Füchse Berlin en hjá Kiel er Alfreð Gíslason auk þess sem að Guðmundur Guðmundsson er þjálfari Rhein-Neckar Löwen.

Þessi þrjú lið eru í þremur efstu sætum þýsku úrvalsdeildarinnar og er árangur þeirra þriggja langt um betri en hjá öðrum liðu, eins og fjallað var um í Fréttablaðinu í morgun.

„Við erum allir með góð lið í höndunum og er það grunnurinn að því að ná góðum árangri," sagði Dagur en viðtalið má heyra í heild sinni hér fyrir ofan.

„En ég held að við höfum margt fram að færa sem þjálfarar. Íslenskir þjálfarar eru vinnusamir og duglegir og að miklu leyti hafa þeir rétta viðhorfið í starfið."

Dagur segir að íslensku þjálfararnir hafi ólík verkefni í höndunum. „Hver hefur sinn djöful að draga," segir hann.

„Alli þarf að vinna hvern einasta leik enda með það sterkt lið. Hann þarf að skila titlum á hverju ári."

„Gummi er svo með erfiða umgjörð í kringum sitt lið. Hann tók við erfiðu liði þar sem miklar væntingar voru gerðar um árangur."

„Svo hefur mitt lið komið mest á óvart því við vorum í tíunda sæti þegar ég tók við. Okkur hefur tekist að klífa upp metorðastigann á minni fjárráðum."

„Allir erum við með ólík verkefni en það hefur gengið vel hjá okkur öllum."

Landsliðsmaðurinn Alexander Petersson fór frá Füchse Berlin í sumar og gekk í raðir Rhein-Neckar Löwen. Dagur viðurkennir að liðið sakni hans mikið.

„Hann var stór partur af okkar liði enda margt jákvætt sem gerðist í kringum hann. Hann kom með mikinn kraft í æfingar og hann var líka góður í leikjunum."

„Hann gat dregið fram það besta úr leikmönnum í leikjum og ég finn að strákarnir sakni hans. Það er eins og að það vanti upp á síðustu prósentin hjá þeim."

Dagur ræðir einnig um tímabilið sem er fram undan hjá Füchse Berlin og gengi liðsins síðustu vikur í viðtalinu sem má heyra í heild sinni efst í fréttinni.


Tengdar fréttir

Kóngarnir í Þýskalandi

Íslensku handboltaþjálfararnir þrír í þýsku úrvalsdeildinni eru að gera frábæra hluti í bestu handboltadeild heims og skjóta öðrum þjálfurum ref fyrir rass. Vinnusemi og góð stjórnun er lykillinn að þessum árangri segir Patrekur Jóhannesson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×