Handbolti

Þrír markahæstu spiluðu allir í Laugardalshöllinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron í leiknum gegn Hvít-Rússum.
Aron í leiknum gegn Hvít-Rússum. Mynd/Valli
Fyrstu umferð undankeppni EM 2014 er nú lokið en alls fóru fram fjórtán leikir í sjö riðlum. Þrír markahæstu leikmenn fyrstu umferðinnar spiluðu allir í Laugardalshöllinni á miðvikudagskvöldið.

Þetta eru þeir Guðjón Valur Sigurðsson og Aron Pálmarsson sem báðir skoruðu ellefu mörk í átta marka sigri Íslands á Hvíta-Rússlandi, 36-28. Þeir eru því markahæstir að lokinni fyrstu umferð.

Í þriðja sæti er svo Hvít-Rússinn Siarhei Rutenka sem skoraði tíu mörk í leiknum.

Segja má að aðeins ein óvænt úrslit hafi litið dagsins ljós í undankeppninni. Það var sigur Svartfellinga á Þýskalandi í Mannheim, 31-27. Þýska úrvalsdeildin er sú sterkasta í heimi en landsliðið hefur ekki náð standa undir væntingum undanfarin ár.

Serbía, silfurliðið frá EM í janúar, vann svo eins marks sigur á Rússlandi, 30-29, í spennandi leik en annars var lítið um nauma sigra.

Þess má svo geta að Patrekur Jóhannesson vann frábæran sigur í fyrstu umferðinni en hann er nú landsliðsþjálfari Austurríkis. Lærisveinar hans fóru létt með Bosníu á heimavelli og unnu með ellefu marka mun, 35-24. Þeir eiga nú fyrir höndum erfiðan útileik í Rússlandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×