Fótbolti

Meistaradeildarlið Málaga getur ekki borgað leikmönnum laun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Málaga.
Leikmenn Málaga. Mynd/Nordic Photos/Getty
Málaga hefur slegið í gegn í Meistaradeildinni á þessu tímabili en spænska liðið er búið að vinna fyrstu þrjá leiki sína í riðlakeppninni og er með fimm stiga forskot á AC Milan á toppi síns riðils. Málaga er einnig í þriðja sæti spænsku úrvalsdeildarinnar og því ætti allt að vera í fínu lagi hjá félaginu en svo er þó ekki.

Málaga hefur glímt við fjárhagserfiðleika síðustu misseri og þurfti þess vegna að selja stjörnuleikmann sinn Santi Cazorla til Arsenal í sumar.

Nú er staðan hinsvegar svo slæm að leikmenn liðsins fengu ekki útborgað í gær. Eigendur félagsins eru að reyna að komast í bónuspeninga frá UEFA sem félagið á inni en hefur ekki fengið greidda vegna rekstrarvandræðanna en það er ólíklegt að þeir verði aðgengilegir.

Leikmenn Málaga hafa fengið loforð um að þeir fái laun sín greidd seinna í þessum mánuði en áhrif þessa á leikmannahópinn gæti kannski komið í ljós inn á vellinum í næstu leikjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×