Handbolti

Íþróttasálfræðingur og markvarðaþjálfari starfa með landsliðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roland Valur Eradze í leik með íslenska landsliðinu árið 2005.
Roland Valur Eradze í leik með íslenska landsliðinu árið 2005. Mynd/Tommy Holl
Ágúst Jóhannsson undirbýr nú íslenska landsliðið fyrir EM kvenna í handbolta í Serbíu í næsta mánuði og hefur fengið til liðs við sig bæði íþróttasálfræðing og markvarðaþjálfara.

Roland Valur Eradze, fyrrum landsliðsmarkvörður í handbolta, er kominn í þjálfarateymi íslenska landsliðsins en í dag var æfingahópur Íslands fyrir EM tilkynntur. Fjórir markverðir eru í þeim hópi.

Þá hefur Viðar Halldórsson, íþróttasálfræðingur, starfað með leikmannahópnum en Ágúst segir að hugarfar og liðsheild spili stórt hlutverk í árangri liðsins.

„Til þess að ná góðum úrslitum þurfa leikmenn að vera með rétt hugarfar og vel stemmdir. Við þurfum að átta okkur á því að liðsheildin er lykilatriði í öllum landsliðum," sagði Ágúst í samtali við Vísi í dag.

„Við höfum unnið mikið með hugarfar leikmanna og ég tel það mikilvægt. Við erum í mjög erfiðum riðli en engu að síður stefnum við auðvitað að því að komast áfram. Við höfum mikla trú á að við getum það."

Ísland er í riðli með Rúmeníu, Svartfjallalandi og Rússlandi en alls komast þrjú lið áfram úr hverjum riðli í milliriðlakeppnina.

„Við þjálfararnir höfum skoðað marga leiki hjá þessum liðum. Það liggur fyrir að allt eru þetta sterkar þjóðir en að sama skapa sér maður möguleika gegn hverri þjóð," sagði Ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×