Handbolti

Óvænt tap hjá Flensburg | Ólafur Bjarki með sjö

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnór í leik með Flensburg.
Arnór í leik með Flensburg. Nordic Photos / Getty Images
Leikið var í efstu tveimur deildunum í Þýskalandi í dag sem og í dönsku úrvalsdeildnni, þar sem Íslendingar voru í eldlínunni.

Hannover-Burgdorf vann mjög góðan sigur á Flensburg á heimavelli og komst með honum upp í fimmta sæti deildarinnar. Flensburg situr eftir í því sjötta.

Arnór Atlason skoraði ekki fyrir Flensburg að þessu sinni en mikil spenna var í leiknum og skoraði Mait Patrail sigurmark Hannover-Burgdorf þegar örfáar sekúndur voru til leiksloka.

Wetzlar, sem er í fjórða sæti, vann Göppingen á útivelli, 27-23. Kári Kristján Kristjánsson skoraði tvö mörk fyrir Wetzlar og Fannar Friðgeirsson eitt.

Vignir Svavarsson komst ekki á blað þegar að Minden tapaði fyrir Melsungen á útivelli, 26-21. Minden er í fjórtánda sæti deildarinnar.

Í þýsku B-deildinni fór Ólafur Bjarki Ragnarsson mikinn er Emsdetten gerði jafntefli við Eisenach á útivelli, 27-27, í toppslag deildarinnar. Ólafur Bjarki skoraði sjö mörk fyrir Emsdetten og Ernir Arnarson tvö.

Aðalsteinn Eyjólfsson er þjálfari Eisenach en Hannes Jón Jónsson er frá vegna veikinda og lék ekki með liðinu í dag.

Emsdetten er á toppi deildarinnar með nítján stig en Eisenach í þriðja sætinu með fimmtán.

Fjölmargir leikir fóru fram í dönsku úrvalsdeildinni í dag. Atli Ævar Ingólfsson skoraði tvö mörk fyrir SönderjyskE sem vann Skive, 25-22, en Anton Rúnarsson komst ekki á blað.

Mors-Thy vann Skanderborg á útivelli, 30-26, og skoraði Einar Ingi Hrafnsson fjögur mörk fyrir fyrrnefnda liðið.

Matthías Daðason skoraði eitt mark fyrir TMS Ringsted sem vann Nordsjælland, 36-25.

Bjerringbro/Silkeborg hafði betur gegn Skjern í jöfnum leik, 29-28. Guðmundur Árni Ólafsson skoraði þó ekki fyrir fyrrnefnda liðið í leiknum.

Bjerringbro/Silkeborg er í öðru sæti deildarinnar með sautján stig, SönderjyskE er í því sjötta með tíu stig og Mors-Thy í sjöunda með níu stig. TMS Ringsted er í tíunda sæti með sex stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×