Veiði

Mengun í Ytri-Rangá aðallega ímyndarmál

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Ytri-Rangá er mikið gríðamikil lindará fráveitan á Hellu mengar lítið. Þegar óhöpp verða mislíkar veiðimönnum hins vegar að sjá úrgang fljótandi niður ánna.
Ytri-Rangá er mikið gríðamikil lindará fráveitan á Hellu mengar lítið. Þegar óhöpp verða mislíkar veiðimönnum hins vegar að sjá úrgang fljótandi niður ánna. Mynd / Garðar
Úrgangur sem lekið hefur í Ytri-Rangá frá kjúklingasláturhúsi á Hellu er fyrst og fremst sjónræn mengun en hefur ekki valdið skaða í lífríkinu.

Ofangreint kemur fram í Drögum að stöðuskýrslu fyrir vatnasvæði Íslands. Eins og kunnugt er hafa veiðimenn við Ytri-Rangá einstaka sinnum orðið varir við kjúklingaúrgang fljótandi í ánni. Lax-á, leigutaki árinnar, er einmitt um þessar mundir að krefjast milljóna króna í skaðabætur eftir eitt óhappið sem varð í fyrrasumar. Fyrirtækið segist hafa orðið af miklum tekjum vegna veiðimanna sem þurft hafi frá að hverfa.

Í stöðuskýrslunni segir að mælingar í október síðastliðnum hafi sýnt litla saurkólígerlamengun við og neðan við hreinsistöð í fráveitunni á Hellu. "Þessar niðurstöður benda til að viðtakandinn, Ytri-Rangá, sé ekki undir álagi vegna gerla og lífrænna efna úr þéttbýlisfráveitu," segir í skýrslunni.

Áfram segir að tímabundið en umtalsvert álag hafi orðið í Ytri-Rangá vegna mengunar af völdum fitu og sláturúrgangs frá sláturhúsum þegar fitugildrur hafi yfirfyllst, einkum hjá kjúklingasláturhúsi Reykjagarðs. "Nokkrum sinnum á síðustu árum hefur slíkur úrgangur farið beint í ánna út af þessu," segir í skýrslunni.

Þá segir að hreinsibúnaðurinn sé kominn á tíma og þarfnist úrbóta að mati Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. "Þetta eru fyrst og fremst mjög neikvæð sýnileg áhrif sem skaðað geta ímynd þessarar vinsælu veiðiár," segir í stöðuskýrslunni sem gerð er af Umhverfisstofnun.






×