Handbolti

Montpellier ætlar að losa sig við Nikola Karabatic

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikola Karabatic.
Nikola Karabatic. Mynd/Nordic Photos/Getty
Franska blaðið L'Equipe sagði frá því í dag að Montpellier ætli að selja franska landsliðsmanninn Nikola Karabatic en hann er af mörgum talinn vera einn besti handboltamaður heims.

Nikola Karabatic vill sjálfur vera áfram hjá franska liðinu en hann flæktist í mesta veðmálasvindl í sögu franska handboltans ásamt bróður sínum sem hefur þegar verið rekinn frá Montpellier. Montpellier tapaði þá óvænt fyrir einu lélegasta liðinu í frönsku deildinni og seinna kom í ljós að margir höfðu sett pening á tap hjá Montpellier þar á meðal ættingjar og vinir Karabatic-bræðranna.

Umboðsmaður Karabatic fékk hinsvegar þær upplýsingar frá klúbbnum að félagið ætli að selja leikmanninn sem fyrst en mörg af stóru klúbbunum hafa örugglega áhuga á að fá til sín þennan frábæra leikmann.

„Þeir vilja að ég fari frá félaginu en ég skil ekki af hverju og vill bara fá svör," er haft eftir Nikola Karabatic í L'Equipe.

Karabatic lék með Kiel frá 2005 til 2009 en hann snéri þá aftur til uppeldisfélags síns Montpellier HB. Hann hefur verið meistari með sínu liði samfellt frá árinu 2002 (Montpellier 2002-2005, Kiel 2006-2009 og Montpellier 2010-12).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×