Fyrir tveimur árum síðan keppti hann á hinum svokölluðu Winter X Games í Bandaríkjunum og vann þar gull í grein sem nefnist Big Air. Hann keppir á leikunum aftur um helgina og freistar þess að endurheimta gullið sem hann missti í fyrra. Reyndar gerir hann sér sjálfur engar væntingar um sigur.
„Í rauninni er ég ekkert mjög vel stemmdur fyrir þá keppni. Ég hef bara verið á handriðum og að taka upp efni á myndband innanbæjar síðustu mánuðina. Ég er því svolítið eftir á í stökkum eins og er," segir Halldór, en keppni í Big Air gengur út á að stökkva af stórum palli og framkvæma kúnstir í loftinu – ekki ólíkt dýfingum í sundi.
Gæti keppt á Ólympíuleikum

Í báðum greinum eru gefin stig fyrir framkvæmd og stíl og sá stigahæsti hverju sinni ber sigur úr býtum.
En það sem aðskilur Halldór frá flestum öðrum íþróttamönnum er að í hans huga er það ekki aðalatriðið að vinna – verða bestur eða fá gull um hálsinn.
„Ég reyni frekar að skemmta mér og hafa gaman. Ég reyni mitt besta og sé svo til hvað gerist. Ef maður stefnir á sigur og það tekst ekki verður maður auðvitað fyrir vonbrigðum. Mér finnst auðvitað gaman að vinna en ef ég verð neðstur þá er það í lagi líka," segir Halldór.
Hann útilokar þó ekki að keppa á Ólympíuleikum fyrst búið er að gera Slopestyle að keppnisgrein. „En þá þarf ég að huga að ýmsu sem ég nenni ekki að hugsa um – landslið og fleira sem ég skil ekkert í. Eða þá að hafa þjálfara sem ég er alls ekki hrifinn af. Ég vil frekar vera á eigin vegum og gera það sem ég vil sjálfur gera," segir Halldór en bætir við: „En það eru tvö ár í leikana og maður sér til hvað gerist. Ég útiloka ekki neitt."
Sveitapiltur úr Eyjafirði

„Þetta hefur gerst mjög hratt hjá mér. Mun hraðar en ég hafði nokkru sinni getað ímyndað mér," segir Halldór en bróðir hans, Eiríkur, lifir líka á íþróttinni og saman ferðast þeir um heiminn gera það sem þeim finnst skemmtilegast.
Á snjóbrettaíþróttinni eru í raun tvær meginhliðar. Annars vegar keppnisíþróttin og hins vegar framleiðsla á snjóbrettamyndum. Halldór gerir hvort tveggja en Eiríkur keppir reyndar ekki. Þeir gerðu síðast myndina Sexual Snowboarding, ásamt Gulla Guðmundssyni, æskufélaga sínum, sem má sjá á heimasíðu þeirra, www.helgasons.com.
Þá hafa þeir bræður í samstarfi við aðra rekið framleiðslu á ýmsum snjóbrettavörum undir nokkrum vörumerkjum, svo sem snjóbrettum og ýmiss konar fatnaði.
Leigja íbúð í Mónakó

„Þetta er bara mín vinna – það eina sem ég geri. Það er auðvitað frábært að fá að vinna við áhugamálið sitt enda hef ég rennt mér á bretti síðan ég var pínulítill," segir Halldór. „Ég get ekki kvartað."