Skoðun

Ónóg vernd gegn mismunun

Baldur Kristjánsson skrifar
Í fjórðu skýrslu ECRI um Ísland, sem kom út í vikunni, kemur fram að ECRI telur að 65. grein stjórnarskrárinnar veiti ekki fullnægjandi vernd gegn mismunun og hvetur Ísland til þess að samþykkja samningsviðauka númer 12 við mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar mismunun af hálfu „hvers konar opinbers yfirvalds af nokkurri ástæðu". Að dómi ECRI ættu yfirvöld sem vilja í raun og veru útrýma hvers kyns mismunun (t.d. launamisrétti kynja) að samþykkja samningsviðaukann ekki síðar en í gær.

Þá er gagnrýnt að Íslendingar hafi ekki staðfest Félagsmálasáttmála Evrópu, sáttmála UNESCO gegn mismunun á sviði menntunar, rammasamning um vernd Þjóðernisminnihlutahópa, Evrópusáttmálann um tungumál minnihlutahópa og sáttmála um réttindi farandverkamanna.

Þessa sáttmála hafa „nýju" ríkin í Evrópu óðum verið að staðfesta og skríða þannig fram úr okkur í mannréttindalegu tilliti. Í skýrslunni er verulegu hornauga litið hvernig Íslendingar hafa dregið það í 12 ár að veita múslímum leyfi til að byggja mosku. Dregið er fram að á einni sjónvarpsstöð og vefsíðum tíðkist fjandsamleg ummæli í garð múslíma. Þá er gagnrýnt að Ísland hafi ekki komið á fót sjálfstæðu embætti sem hafi það hlutverk að sporna gegn kynþáttafordómum. Áhyggjum er lýst af því að Fjölmenningarsetrið á Íslandi sé ekki í alfaraleið (Ísafirði) en áður hefur ECRI hrósað mjög starfsemi þess. Þá eru fjölmiðlamenn gagnrýndir fyrir það að tíunda þjóðerni grunaðra oftar en ástæða er til og ýti þannig undir fordóma.

Þrjú megintilmæli ECRI til íslenskra stjórnvalda ganga út á það að virða 9. grein mannréttindasáttmála Evrópu og veita samfélagi múslíma á Íslandi leyfi til að byggja moskur. Þá hvetur ECRI stjórnvöld til þess að leggja fram hið fyrsta lagafrumvarp um bann við mismunun til þess að sporna gegn kynþáttafordómum og kynþáttamisrétti. Þá ítrekar ECRI fyrri tilmæli sín um að ákvæði verði tekið upp í hegningarlög sem mæli sérstaklega fyrir um að meta beri það til refsihækkunar ef kynþáttafordómar liggja að baki broti.

ECRI mun fylgja sérstaklega eftir þessum þremur tilmælum þegar tvö ár eru liðin. ECRI hefur ekkert tilskipunarvald yfir aðildarlöndum, sem eru 47, frekar en Evrópuráðið sjálft. Aðeins áhrifavald og leiðbeiningarvald. Og skýrslur eins og þessar hafa hlotið blessun ráðherraráðs Evrópuráðsins sem er skipað utanríkisráðherrum aðildarríkjanna eða staðgenglum þeirra. Í tilviki Íslands er það Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra í París.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×