Lífið

Antonio Banderas leikur Picasso

Antonio banderas vílar ekki fyrir sér að taka að sér krefjandi hlutverk.
Antonio banderas vílar ekki fyrir sér að taka að sér krefjandi hlutverk.
Spænski leikarinn Antonio Banderas leikur Pablo Picasso í nýrri kvikmynd um listmálarann. Myndin ber nafnið 33 Days og er leikstýrt af spænska leikstjóranum Carlos Saura. Hún fjallar um tímabilið þegar Picasso málaði málverkið Guernica árið 1937. Hún mun einnig fjalla um samband listmálarans við frönsku listakonuna Doru Maar.

Samkvæmt tímaritinu Variety er áætlað að hefja tökur sumarið 2013.

Banderas sagði í viðtali við spænska blaðið El País að hann hefði fæðst aðeins nokkrum húsaröðum frá staðnum þar sem Picasso fæddist, en þeir eru báðir fæddir í Malaga á Spáni. Hann hafi lengi ætlað að taka að sér að leika listmálarann en ávallt neitað þangað til nú.

Pablo Picasso er einn af þekktustu listamönnum 20. aldar, en hann lést árið 1973 þá 91 árs að aldri. Hann er best þekktur fyrir að hafa þróað kúbisma ásamt George Braque. Einnig þótti hann afar afkastamikill, en eftir hann liggja um 50.000 listaverk. Guernica er eitt af hans þekktustu verkum, en hann málaði það eftir að þýskar og ítalskar herflugvélar sprengdu bæinn Guernica á Spáni. Málverkið er nú til sýnis í Museo Reina Sofí safninu í Madríd.

Banderas hefur áður leikið sögufrægar persónur en hann lék Che Guevara í kvikmyndinni Evita.

Sögusagnir hafa verið um að Banderas muni taka að sér að leika Fidel Castro í nýrri kvikmynd um dóttur Castros, sem ber nafnið Castro's Daughter.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×