Skoðun

Skattpíning Sjálfstæðisflokksins á börnum afnumin

Jóhanna Sigurðardóttir skrifar
Matthías Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og leiðtogi í Sjálfstæðisflokknum, ritaði grein sem birt var á þessum stað í Fréttablaðinu í gær undir fyrirsögninni „Ríkisstjórn Jóhönnu og skattpíning barna".

Það er rétt hjá Matthíasi að ég hef á löngum stjórnmálaferli fjallað um skattlagningu barna. Má þar nefnda hróplegt óréttlæti sem fólst í því að fyrir meira en áratug í tíð sjálfstæðismanna greiddu 15 ára unglingar fjórfalt hærri skatt af tekjum sínum en 16 ára unglingar vegna undarlegra skattareglna.

Það er hins vegar alrangt hjá Matthíasi að ríkisstjórn mín hafi staðið fyrir hækkun á sköttum barna og unglinga eða almennings yfirleitt þegar kemur að vaxtatekjum af bankabókum og innstæðum í fjármálastofnunum. Reyndar má fullyrða að í langflestum tilvikum hafa skattar á þessa hópa lækkað vegna breytinga ríkisstjórnarinnar á fjármagnstekjuskatti. Samhliða hækkun skatthlutfallsins í 20 prósent var innleitt frítekjumark að upphæð 100.000 kr á ári fyrir einstaklinga og 200.000 kr fyrir hjón. Í tíð sjálfstæðismanna höfðu vaxtatekjur af bankainnstæðum alls almennings verið skattlagðar frá fyrstu krónu.

Öllum almennum sparnaði, ekki síst hjá börnum og unglingum, var því hlíft við skattlagningu eftir að ríkisstjórn mín hafði breytt skattkerfinu ólíkt því sem áður var í tíð Sjálfstæðisflokksins. Nú er reyndin sú að ríkir fjármagnseigendur greiða bróðurpartinn af þeim fjármagnstekjuskatti sem innheimtur er í landinu.

Matthías ætti einnig að íhuga hvaða sögu eftirfarandi staðreyndir segja um það þjóðfélag sem við búum nú í. Árið 2010 var fjármagnstekjuskattur lagður á tæplega 183 þúsund einstaklinga. Á síðasta ári var fjármagnstekjuskattur lagður á rétt um 47 þúsund einstaklinga. Á einu ári fækkaði þeim sem greiddu fjármagnstekjuskatt um 136 þúsund, ekki síst vegna þess skattfrelsis sem núverandi ríkisstjórn innleiddi fyrir allan minniháttar sparnað, m.a. hjá börnum og unglingum.

Við jafnaðar- og vinstrimenn, sem nú stýrum landinu, beitum skattkerfinu gegn ójöfnuðinum sem flokkur Matthíasar stuðlaði að árum saman með ívilnandi hætti fyrir hina ríku. Við erum stolt af því að hafa snúið af óheillabraut ójöfnuðarins.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×