Innlent

Upptökur gætu truflað réttarhöldin

Geir H. Haarde kemur fyrir dóm í Þjóðmenningarhúsi
Geir H. Haarde kemur fyrir dóm í Þjóðmenningarhúsi
Ríkisútvarpið sóttist eftir því að fá að taka upp landsdómsréttarhöldin og sýna þau í beinni útsendingu. Þeirri beiðni hafnaði dómurinn.

Í elleftu grein sakamálalaga segir að óheimilt sé að hljóðrita eða taka myndir í þinghaldi, en að dómari geti veitt undanþágu frá banninu ef sérstaklega standi á. Óðinn Jónsson, fréttastjóri RÚV, sagði í gær að hvorki Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari né Andri Árnason, verjandi Geirs, hefðu sett sig upp á móti því að sýnt yrði beint frá réttarhöldunum.

Markús Sigurbjörnsson, forseti Hæstaréttar og Landsdóms, segist ekki vita hver afstaða þeirra var til málsins.

„Það er gefin þröng undantekning fyrir þessu í lögum og það þótti bara ekki við hæfi í þessu máli," segir Markús, sem tók ákvörðunina að höfðu samráði við aðra dómara. „Þessi ákvörðun var tekin öðrum þræði út af því að umstangi við upptökur getur fylgt mikið ónæði," segir Markús. „Það er allavega keppikefli okkar að þetta gangi greiðlega fyrir sig og í friði og við viljum ekki gera úr þessu neitt annað og meira en réttarhald."

En verður undanþáguheimildinni einhvern tímann beitt, ef ekki í málum sem þessu? „Ég er ekki þess umkominn að svara því hér og nú," segir Markús. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×