Menning

Aska fær góða dóma vestanhafs

góðir dómar Aska eftir Yrsu Sigurðardóttur hefur fengið mjög góða dóma í Bandaríkjunum.
góðir dómar Aska eftir Yrsu Sigurðardóttur hefur fengið mjög góða dóma í Bandaríkjunum.
„Þetta eru blöðin sem bóksalar byggja á þegar þeir panta sínar bækur. Þetta hjálpar rosalega mikið til við forsöluna á bókinni," segir Pétur Már Ólafsson hjá Bjarti og Veröld.

Spennusagan Aska, eða Ashes to Dust, eftir Yrsu Sigurðardóttur kemur út í Bandaríkjunum á þriðjudag hjá risaforlaginu Macmillan, sem er einnig búið að tryggja sér útgáfuréttinn á þremur öðrum bókum Yrsu, Horfðu á mig, Ég man þig og Brakið.

Dómar eru farnir að birtast í fagtímaritum bóksala og eru þeir á eina lund. Gagnrýnandi Publishers Weekly segir að bókin sé frábær og ætti að afla Yrsu nýrra aðdáenda. „Jafnvel þeir sem vita ekkert um þessa eldfjallaeyju munu heillast."

Í umsögn Kirkus Review segir: „Undir eldfjallaösku, villusporum og ásökunum liggur ráðgáta sem Stieg Larsson væri fullsæmdur af vægðarlausri lausninni á." Þá sagði Fresh Fiction um Ösku að bókin væri uppfull af óvenjulegum persónum og fléttan kæmi stöðugt á óvart. Ekki skemmir fyrir að á kápu bókarinnar eru ummæli frá metsöluhöfundinum James Patterson þar sem hann hrósar Yrsu.

Yrsa verður í New York þegar bókin kemur út og verður útgáfuhóf haldið í norrænu miðstöðinni Scandinavian House þar í borg.

Aska er þriðja bók Yrsu sem kemur út í Bandaríkjunum. Áður komu þar út Sér grefur gröf og Þriðja táknið sem fengu fína dóma og seldust þokkalega. „Þetta er hrikalega erfiður markaður. Það sem hefur gerst í millitíðinni er að Stieg Larsson hefur verið að ryðja brautina. Núna er jarðvegurinn mjög frjór og við erum mjög bjartsýn á þetta," segir Pétur. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×