Lífið

Goðsögn með Taylor í Hörpu

goðsögn til landsins Steve Gadd spilar á trommur í hljómsveit James Taylor í Hörpunni í maí.nordicphotos/getty
goðsögn til landsins Steve Gadd spilar á trommur í hljómsveit James Taylor í Hörpunni í maí.nordicphotos/getty
„Þetta er algjör goðsögn," segir trommarinn Einar Scheving um kollega sinn Steve Gadd sem spilar með James Taylor í Hörpunni í maí.

Gadd hefur á ferli sínum einnig spilað mikið með Eric Clapton og Paul Simon á tónleikum, auk þess sem hann hefur spilaði inn á hljómplötur með fjölda þekktra flytjenda á borð við Paul McCartney, Peter Gabriel og The Bee Gees.

Einar kynntist Gadd lítillega þegar hann var einn af leiðbeinendum á námskeiði sem hann sótti í Danmörku.

„Ég kynntist honum lítillega, alla vega nóg til að heyra í honum annað slagið," segir Einar, sem hefur miklar mætur á Gadd. „Þetta verða frábærir tónleikar með James Taylor en Gadd er náttúrulega bónus enda má segja að hann sé stærsta nafnið í trommuheiminum. Hann er ekki þekktasti trommarinn í heiminum en í þessum trommubransa er hann sennilega stærsta nafnið."

Að sögn Einars var Gadd einnig einn eftirsóttasti djasstrommuleikari heims um tíma og spilaði mikið með Chick Corea sem stígur einmitt á svið í Hörpunni í apríl. Hann segir að trommustíll Gadds sé mjög einkennandi. „Þó að hann sé þekktur fyrir að vera mjög leiðandi tæknilega er hann ekkert endilega að fara hamförum um settið. Hann er fyrst og fremst með þungavigtargrúv og gefur allt í músíkina." - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×