Lífið

Þreyttur eftir þrjátíu ár í bransanum

hættur Jakob Smári Magnússon er hættur að spila á böllum og hefur fengið starf sem sölumaður.
fréttablaðið/stefán
hættur Jakob Smári Magnússon er hættur að spila á böllum og hefur fengið starf sem sölumaður. fréttablaðið/stefán
„Ég er orðinn þreyttur á þessu," segir bassaleikarinn Jakob Smári Magnússon.

Hann er hættur að spila með hljómsveitunum SS Sól og Reiðmönnum vindanna og ætlar yfirhöfuð að draga sig út úr allri spilamennsku á böllum eftir rúmlega þrjátíu ár í bransanum. „Ég hef verið að reyna að hafa þetta sem mína aðalvinnu en ég ætla að hætta því. Það er rosalega erfitt að lifa á tónlistinni hérna heima. Það eina sem gefur pening er að spila á böllum og ég bara nenni því ekki lengur," segir Jakob Smári, sem hefur lengi verið talinn einn besti bassaleikari þjóðarinnar. Hann er búinn að fá starf sem sölumaður hjá Ásbirni Ólafssyni og verður bassaleikurinn því í aukahlutverki hjá honum þangað til annað kemur í ljós.

Jakob Smári hóf feril sinn fyrir 31 ári með hljómsveitinni Tappi Tíkarrass. Þegar hann var tvítugur sagði hann upp dagvinnunni og hellti sér út í spilamennsku með rokksveitinni Das Kapital og hefur verið atvinnumaður í faginu nánast óslitið síðan. Meðal annarra sveita sem hafa notið krafta hans eru Grafík og Egó, auk Bubba Morthens.

„Ég ætlaði að gera eins og Brad Pitt sem ætlar að hætta að leika þegar hann verður fimmtugur en ég gat það ekki," segir hinn 48 ára Jakob. Hann er þó enn með nokkur verkefni í bakhöndinni, þar á meðal með Láru Rúnarsdóttur og bandaríska tónlistarmanninum John Grant.

Hann spilar með Grant á næstu plötu hans sem kemur út í janúar og á tónleikum í Háskólabíói í júlí. „Það er rosalega gaman að fá að vinna með honum og mikill heiður. Maður bara buktar sig og beygir." -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×