Körfubolti

Svona úrslit munu ekki endurtaka sig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Valli
KörfuboltiÍslenska körfuboltalandsliðið fékk stóran skell í Litháen í gærkvöldi. Fimmtíu stiga tap, 101-51, var súr staðreynd þegar upp var staðið og ljóst á öllu að strákarnir þurfa að laga margt fyrir undankeppni Evrópumótsins sem hefst um miðjan næsta mánuð.

Hlynur Bæringsson, fyrirliði íslenska liðsins, var stigahæstur í íslenska liðinu með 13 stig en hann segir rassskellinn í gær engan áfellisdóm yfir íslenska liðinu.

Fyrst og fremst æfingaferð„Þeir eru okkur fremri á öllum sviðum leiksins og körfuboltamenningin hér er á allt öðru plani en við eigum að venjast. Þetta var samt fyrst og fremst æfingaferð fyrir okkur. Við vissum það alveg fyrir fram að eftir að hafa verið saman í viku þá var það ekki raunhæft að ætla að fara að vinna Litháen á útivelli," sagði Hlynur.

Litháen tók völdin í byrjun og var 30-10 yfir eftir fyrsta leikhlutann. Annar leikhlutinn var betri hjá íslenska liðinu en Litháen var 48-31 yfir í hálfleik. Litháar skoruðu síðan 12 fyrstu stigin í seinni hálfleik og litu ekki til baka eftir það.

„Við getum að sjálfsögðu spilað betur en við gerðum í kvöld og við munum gera það. Þessi úrslit munu ekki endurtaka sig. Við ætlum ekki að gráta þetta of mikið þó svo að við séum svekktir en á venjulegum degi er mikill getumunur á Litháen og Íslandi," segir Hlynur.

Hann viðurkennir að það hafi verið sjokk að mæta svona sterku liði sem er búið að skipta í Ólympíugírinn. „Litháen er frábær körfuboltaþjóð en munurinn er líka meiri út af því hvar liðin eru stödd í sínu prógrammi. Við eigum alveg þrjár vikur inni en þeir eru að fara að keppa eftir nokkra daga," segir Hlynur og segir það ekki hafa farið á milli mála að körfuboltalandslið Litháen eigi sviðsljósið þessa dagana.

Allt snýst um liðið í Litháen„Litháar eru mjög heitir fyrir sínu körfuboltalandsliði og hér snýst allt um þetta Ólympíulið. Ég held að þeir eigi eftir að gera mjög góða hluti á Ólympíuleikunum og ég vona það því ég held alltaf með þeim á Ólympíuleikunum. Þeir gera hlutina rétt og við getum lært eitthvað af þeim því þeir eru lítil þjóð líka," segir Hlynur.

Hlynur segir þjálfarann Peter Öqvist hafa verið svekktan í leikslok. „Peter var svekktur því hann telur að við getum gert miklu betur og það vitum við líka. Þetta var samt æfingaferð og við ætluðum að reyna að nota hana til að hífa okkur upp á hærra plan. Það er gott að fá mjög sterka mótherja," segir Hlynur.

„Hann var helst ósáttur með hvað við vorum að hreyfa boltann hægt því viljum hreyfa boltann eins hratt og við getum til þess að koma hreyfingu á þessa stærri menn," sagði Hlynur en það munaði líka mikið um að íslenska liðið lék án bakvarðarins snjalla Jakobs Sigurðarsonar.

Ekki dæmdir af þessum leikÍslenska liðið mætir Serbíu í Laugardalshöllinni 14. ágúst næstkomandi og er það fyrsti leikur liðsins í undankeppni EM. Liðið spilar síðan níu leiki til viðbótar á næstu fjórum vikum á eftir.

„Við erum nokkuð brattir. Ég er alveg viss um að þessi keppni hjá okkur eigi eftir að vera mjög jákvæð. Við erum að fara að lenda á móti þjóðum eins og Serbíu og Svartfjallalandi sem eru ekki langt frá Litháen. Við ætlum samt að gera þetta að jákvæðri keppni fyrir körfuboltann á Íslandi og þótt þetta hafi verið slæm úrslit þá verðum við ekki dæmdir af þessum leik," sagði Hlynur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×