Handbolti

Snorri Steinn: Þetta var þungt högg í andlitið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Snorri Steinn er enn að jafna sig eftir svekkelsið gegn Ungverjum á Ólympíuleikunum og þarf þess utan að leita sér að nýrri vinnu.fréttablaðið/valli
Snorri Steinn er enn að jafna sig eftir svekkelsið gegn Ungverjum á Ólympíuleikunum og þarf þess utan að leita sér að nýrri vinnu.fréttablaðið/valli
„Það er ekkert mikið að frétta sem stendur en öll hjól eru eðlilega í fullum gangi. Ég er að vega og meta stöðuna. Það þarf að huga að mörgu fyrir framtíðina. Þetta er engin óskastaða þegar tímabilin eru að hefjast úti um alla Evrópu," sagði Snorri Steinn Guðjónsson en hann er atvinnulaus um þessar mundir.

Hann er þess utan tveggja barna faðir í sambúð og því þarf að vanda valið fyrir framtíðarstað fjölskyldunnar sem hefur unað sér vel í Danmörku.

„Auðvitað vil ég að þetta klárist einn, tveir og þrír en það er ekki hægt. Við gætum vel hugsað okkur að vera áfram í Danmörku. Konan mín er hálfur Dani og á fjölskyldu hérna, strákurinn okkar er byrjaður í leikskóla þannig að við erum mjög opin fyrir því að vera hér áfram. Ég verð samt að skoða allt og hef ekkert annað val enda atvinnulaus."

Flest félög eru búin að setja saman lið fyrir tímabilið samkvæmt þeirra fjárhagsáætlun. Við gjaldþrot AG urðu aftur á móti margir heimsklassaleikmenn atvinnulausir og félög sem vilja fá þá þurfa eitthvað að endurskipuleggja sig geti þau það á annað borð.

Íslendingarnir hjá AG – Snorri, Arnór Atlason og Ólafur Stefánsson – vildu lítið tjá sig um gjaldþrotið meðan á Ólympíuleikunum stóð en Snorri neitar því ekki að fréttirnar hafi verið mikið áfall.

„Þetta var þungt högg í andlitið. Það var búinn að vera mikill órói í kringum félagið og Jesper Nielsen eigandann en við sáum þetta ekki fyrir. Venjulega er lengri aðdragandi að gjaldþrotum. Menn lækka í launum, leikmenn eru seldir og svo framvegis," sagði Snorri.

Leikmenn höfðu mikinn áhuga á því að halda rekstrinum gangandi í samstarfi við styrktaraðila. Þær fyrirætlanir fóru út um þúfur er Nielsen ákvað að keyra félagið í þrot.

„Það voru allir styrktaraðilarnir til í að halda þessu gangandi en Jesper ákvað að loka þessu á sínum forsendum. Strákarnir í liðinu sem voru ekki á Ólympíuleikunum fóru á stúfana og voru komnir með fjármagn til þess að reka alvöru handboltalið. Það hefði vel verið hægt að reka þetta handboltalið áfram þó svo með tíð og tíma hefði þurft að minnka sirkusinn. Það þarf ekki alltaf að leigja Parken og flytja úrslitaleiki til Jótlands. Það er stundum bara hægt að spila handbolta," sagði Snorri en leikmenn AG í Danmörku voru á miðri æfingu er félagið var sett í þrot. Svo hratt gerðust hlutirnir að lokað var fyrir síma starfsmanna samdægurs og annað í þeim dúr.

Miðjumaðurinn sterki segir að tíminn hjá AG hafi verið einstakur og hans besti á ferlinum. Hann hafi notið hverrar mínútu.

„Allt sem viðkom hópnum var einstakt. Stemningin og mórallinn var ótrúlegur og ekki í líkingu við annað sem ég hef kynnst. Svo skemmdi ekki fyrir hvað við vorum góðir. Mesta eftirsjáin er í félögunum og stemningunni. Þetta var svakalega skemmtilegur tími. Þetta er líka sorglegt fyrir danskan handbolta sem missir mikið."

Snorri segist reyna að líta á stöðuna jákvæðum augum.

„Þessi reynsla og tími verður aldrei tekinn frá okkur. Maður á svo örugglega eftir að hlæja að þessu gjaldþroti þegar maður er orðinn fimmtugur þó svo maður geri það ekki núna."

Erfitt að ná vítakastinu úr hausnumÍslenska landsliðið stendur á ákveðnum tímamótum um þessar mundir. Ólafur Stefánsson er líklega hættur og heyrst hefur að Guðjón Valur og jafnvel Snorri séu að hugsa sinn gang varðandi landsliðið.

„Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki leitt hugann neitt að landsliðinu eftir Ólympíuleikana fyrir utan vítakastið. Það fer ekki svo auðveldlega úr hausnum á mér því miður," sagði Snorri en númer eitt hjá honum núna er að finna sér nýjan samastað.

„Ég er samt bara þrítugur og því lítið sem ætti að koma í veg fyrir að ég geti spilað með landsliðinu. Ég á nóg eftir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×