Skoðun

Öflugt atvinnulíf er forsenda velferðar á Íslandi

Gunnar Bragi Sveinsson skrifar
Öflugt atvinnulíf er forsenda þess að Ísland verði áfram eftirsótt til búsetu og heimsókna. Efling atvinnulífsins verður best tryggð með samtali og samvinnu stjórnvalda og þeirra sem eiga og reka stór og smá fyrirtæki. Hvert einasta starf skiptir máli og hver einasta króna sem framleidd er telur. Möguleikar Íslands eru nánast óþrjótandi ef samstarf þessara aðila er með eðlilegum hætti. Það er tómt mál að tala um öflugt velferðarkerfi eða annað sem kostar samfélagið fjármuni ef enginn er til staðar að búa þá fjármuni til. Fjármunir þeir sem þarf til að reka samfélagið verða fyrst og fremst til í öflugu atvinnulífi. Tækifæri til að efla fjárfestingu, skapa atvinnu og búa til verðmæti fyrir íslenskt samfélag verðum við að nálgast fordómalaust, hvort sem þau teljast lítil eða stór, allt verður að skoða því sjaldnast er hægt að dæma fyrir fram.

Engum dylst að áfram verða sjávarútvegur, iðnaður, landbúnaður og þjónustustarfsemi burðarásar atvinnulífsins. Við þessa burðarása verður að styðja. En um leið verður að opna dyr tækifæranna fyrir hinum smærri og nýta kraftinn í frumkvöðlunum hvar sem þeir eru. Burðarásarnir geta ekki sinnt því einir að afla fjármuna fyrir samfélagið og því verður að skapa öðrum vaxandi greinum tækifæri til að dafna. Hátækni, kvikmyndir, önnur menning og listir þurfa skapandi umhverfi og stuðning til að sinna sínu hlutverki í eflingu samfélagsins.

Flestum er ljóst að sá dýrmæti tími sem farið hefur til spillis frá fjármálahruninu kemur ekki aftur. Þau tækifæri sem stjórnvöld höfðu til að breyta samfélaginu og blása til framsóknar í burðarásum atvinnulífsins voru ekki nýtt. Með trausti og trúnaði má styrkja sjálfsmynd þjóðarinnar svo hún sjái til sólar, sjái hag sinn vænkast í nánustu framtíð. Samráð um framtíð Íslands verður að eiga sér stað fordómalaust þar sem styrkleikar hvers og eins eru nýttir til hins ýtrasta. Atvinnulífið er aflvaki fjármuna og því verður umgjörð þess að vera hvetjandi um leið og höfða verður til samfélagslegrar skyldu þess.

Staðreyndin er sú að allir hagnast á öflugu atvinnulífi á einn eða annan hátt.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×