Handbolti

Landsliðaflakkarinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alexander Petersson tekur hér á Siarhei Rutenka í leik Slóveníu og Íslands á HM 2007. Þeir mætast aftur á vellinum í kvöld.
Alexander Petersson tekur hér á Siarhei Rutenka í leik Slóveníu og Íslands á HM 2007. Þeir mætast aftur á vellinum í kvöld. Nordic Photos / AFP
Siarhei Rutenka er einn lykilmanna hvítrússneska landsliðsins sem mætir því íslenska í kvöld. Hann er lykilmaður í sterku liði Barcelona en var einnig samherji Ólafs Stefánssonar hjá Ciudad Real frá 2005 til 2009.

Það þykir þó lítið tiltökumál að skipta um félagslið, enda algengt í öllum íþróttum. Heldur óalgengara er að skipta um landslið en það gerist þó reglulega. Rutenka hefur þó afrekað það sem fáum hefur tekist – að skipta tvívegis um landslið.

Rutenka er fæddur og uppalinn í Hvíta-Rússlandi og hóf sinn landsliðsferil þar. Hann spilaði svo með félagsliðum í Slóveníu frá 2000 til 2005 og fékk slóvenskan ríkisborgararétt árið 2004. Rutenka skipti þá um landslið og spilaði alls 40 landsleiki með Slóveníu, til að mynda bæði á EM 2006 og HM 2007.

Árið 2005 flutti Rutenka svo til Spánar eftir að hafa samið við Ciudad Real. Þremur árum síðar fékk hann spænskan ríkisborgararétt og afsalaði sér um leið þeim slóvenska.

Reglan er að handboltamenn mega ekki spila landsleik í þrjú ár áður en þeir fá að spila með nýju landsliði og hefði Rutenka því getað gefið kost á sér í spænska landsliðið árið 2010. Hann valdi hins vegar að snúa aftur til síns heima og hefur síðan verið fastamaður í liði Hvít-Rússa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×