Handbolti

Skrefi á undan þeim bestu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Valli
Aron Pálmarsson fór á kostum í sigrinum á Hvít-Rússum á miðvikudagskvöldið og þessi 22 ára strákur er fyrir löngu búinn að tryggja sér sæti meðal lykilmanna íslenska handboltalandsliðsins.

Það er því athyglisvert að skoða hvað þrír markahæstu leikmenn handboltalandsliðsins frá upphafi og þjálfari hans hjá Kiel, Alfreð Gíslason, voru búnir að afreka á sama aldri.

Á fjórða ári í atvinnumennskuAron er nýbyrjaður á sínu fjórða tímabili í atvinnumennsku með einu allra besta liði í heimi, Kiel frá Þýskalandi. Ólafur Stefánsson, Kristján Arason, Alfreð Gíslason og Guðjón Valur Sigurðsson fóru allir mun seinna í atvinnumennsku en það verður þó að taka inn í að aðstæður í dag eru allt aðrar en þær voru á þeim tíma.

Aron er þegar búinn að skora 101 mark á þessu ári, mun meira en hinir gerðu á sama aldri, og þá er hann einnig búinn að slá þeim við með því að vinna sjö stóra titla með Kiel, taka þátt í fjórum stórmótum og vera valinn í úrvalslið á stórmóti. Það tók hina mörg ár í viðbót að fá slíkt á afrekaskrána hjá sér.

Hvað gerðu hinir fjórir?Kristján Arason varð 22 ára í júlí 1983 en vorið eftir vann hann sinn fyrsta stóra titil þegar FH-ingar urðu Íslandsmeistarar. Kristján fór út í atvinnumennsku tveimur árum síðar þegar hann samdi við þýska liðið Hameln.

Kristján var á þessum tíma orðinn algjör lykilmaður í íslenska landsliðinu, en eftir 22. aldursárið var hann kominn með 225 mörk í 49 landsleikjum, eða 4,6 mörk í leik. Kristján fór hinsvegar ekki á sitt fyrsta stórmót fyrr en ári síðar, þegar íslenska landsliðið náði sjötta sæti á Ólympíuleikunum í Los Angeles. Íslenska landsliðið spilaði ekki á stórmóti fyrstu fjögur ár Kristjáns í landsliðinu.

Alfreð Gíslason varð 22 ára í september 1981, en þá var hann að spila með KR í íslensku deildinni. Alfreð gerðist fyrst atvinnumaður tveimur árum síðar, þegar hann samdi við þýska liðið Tusem Essen, og ári síðan tók hann þátt í fyrsta stórmótinu með íslenska landsliðinu þegar það fór á Ólympíuleikana í Los Angeles.

Ólafur Stefánsson varð 22 ára í júlí 1995, þá sem leikmaður Vals. Hann átti eftir að spila eitt tímabil í viðbót með Val áður en hann varð atvinnumaður hjá þýska b-deildarfélaginu Wuppertal.

Ólafur var þarna búinn að vinna 5 af 6 stórum titlum sínum með Val. Ólafur tók einnig þátt í sínu fyrsta stórmóti 22 ára gamall þegar hann var með á HM á Íslandi.

Guðjón Valur Sigurðsson varð 22 ára í ágúst 2001 þegar hann var að hefja atvinnumannaferil sinn hjá TUSEM Essen. Hann var þarna búinn að spila á tveimur stórmótum með íslenska landsliðinu og var búinn að vinna sér fast sæti í stöðu vinstri hornamanns.

Nánari úttekt á samanburðinum má sjá hér fyrir neðan




Fleiri fréttir

Sjá meira


×