Bretland Enska biskupakirkjan felldi í gær naumlega tillögu um að konur gætu orðið biskupar í kirkjunni. Tuttugu ár eru síðan kirkjan samþykkti að konur gætu orðið prestar.
Allar deildir kirkjuþingsins samþykktu tillöguna, en ekki með tveimur af hverjum þremur atkvæðum eins og nauðsynlegt var til þess að hún næði í gegn. Tillagan, sem atkvæði voru greidd um í gær, gekk út á málamiðlun sem fólst í því að konur gætu orðið biskupar, en söfnuðir gætu engu að síður farið fram á að þær feli karli biskupsvöld sín. Rowan Williams, núverandi erkibiskup af Kantaraborg, hvatti fólk til að samþykkja tillöguna. - gb, þeb

