Það þarf í raun lítið annað en vatn og smá sápu til að halda veiðibúnaðnum í toppstandi.
Hér eru nokkrar punktar sem vert er að hafa í huga:
- Veiðistöngin: Það þarf svo sem ekki mikið að hugsa um stöngina. Þó er ágæt regla að setja hana ekki blauta í stangarhólk og sérstaklega ekki vefja henni blautri í klút og setja í hólk. Ef það er gert þá er í það minnsta nauðsynlegt að taka hana úr hólknum þegar heim er komið og leyfa henni að þorna. Annars getur korkurinn skemmst og ef stöngin var í saltvatni getur hjólastæðið ryðgað.
- Hjól: Það á að skola hjól eftir notkun. Sérstaklega er þetta mikilvægt ef það hefur verið notað í saltvatni, til dæmis í ósaveiði við sjó. Sumir spóla allri línunni af hjólinu og hreinsa það vandlega með vatni. Ef sandur eða drulla hafa komist inn í hjólið er ágætt að taka spóluna af og hreinsa skítinn burt með bursta, til dæmis tannbursta.
- Lína: Ef línan hefur verið notuð í saltvatni, vatni þar sem mikið er um þörunga nú eða vatni þar sem sjúkdómar hafa herjað á fiska er nauðsynlegt að hreinsa línuna. Þá er best að spóla línunni af hjólinu og leggja hana í fat með hreinu vatni og smá sápu. Þegar línan hefur legið í sápuvatninu í nokkrar mínútur er henni spólað aftur á hjólið. Gott að vera með þurran klút og strjúka af línunni um leið og það er gert.
- Vöðlur: Það er óþarfi að þvo vöðlur. Það er hins vegar nauðsynlegt að hengja þær upp til þerris eftir hverja veiðiferð, annars geta þær myglað.
- Vöðluskór: Það á að hreinsa sólana á vöðluskóm eftir hverja veiðiferð, sérstaklega ef farið er úr einu vatni í annað eða einni á í aðra. Best er að hreinsa þá með heitu vatni og sápu.
- Flugur: Ekki geyma blautar flugur í lokuðu boxi. Sérstaklega á þetta við um flugur með stórum vængjum eða stélum. Litarefnin úr hnýtingarefninu getur smitast í aðrar flugur í boxinu. Eftir hvern veiðidag er ágætt að geyma boxið opið. Þá þorna flugurnar fljótt. Mikill raki í lokuðu boxi getur líka leitt til þess að krókar ryðgi.
Heimild: The Orvis Guide to Beginning Fly Fishing
trausti@frettabladid.is