Handbolti

Svíar og Þjóðverjar gerðu jafntefli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Úr leiknum í dag.
Úr leiknum í dag. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Svíþjóð og Þýskaland gerðu 28-28 jafntefli í æfingalandsleik í Hamborg í kvöld en íslenska landsliðið í handbolta spilar einmitt við Svía á þriðjudaginn kemur í síðasta æfingaleik sínum fyrir HM á Spáni.

Christoph Theuerkauf tryggði þýska liðinu jafntefli í kvöld með því að skora jöfnunarmarkið rétt fyrir leikslok en Svíar voru 16-15 yfir í hálfleik. Silvio Heinevetter, markvörður Þjóðverja, var besti maður þýska liðsins í leiknum en þeir Adrian Pfahl, Kevin Schmidt og Tobias Reichmann skoruðu allir fjögur mörk.

Þjóðverjar unnu 26-20 sigur á Svíum þegar þjóðirnar spiluðu fyrir tveimur dögum í Svíþjóð en á meðan Þjóðverjar eru að undirbúa sig fyrir HM þá verða Svíarnir ekki meðal þátttökuþjóða á heimsmeistaramótinu á Spáni því þeir sátu eftir í umspilinu.

Þjóðverjar mæta Brasilíumönnum í fyrsta leik en þeir eru einnig í riðli með Frakklandi, Túnis, Argentínu og Svartfjallalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×