„Ætli þetta séu ekki 46 þúsund dollarar," segir Siggi tölvuhakkari um upphæðina sem hann á að hafa stolið af Wikileaks. Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks, hefur kært Sigga, sem er 20 ára gamall, fyrir fjárdrátt eins og fréttastofa Stöðvar 2 greindi frá í kvöld. Vísir ræddi við Sigga, sem er staddur erlendis þessa dagana, þar sem hann var inntur eftir afstöðu til málsins en þá svaraði hann einfaldlega: „Nó komment."
Heimildir Vísis herma þó að hann líti á upphæðina sem ógreidd laun fyrir vinnu sína, sem Kristinn hefur hingað til talað um sem sjálfboðavinna. Þegar Siggi er spurður hvort hann hafi fengið peninginn neitar hann því ekki.
Siggi hefur áður komist í fréttirnar, síðast eftir að hann kom fram í viðtali við BBC þar sem hann hélt því fram að hann hefði hakkað sig inn á vef stjórnarráðsins þegar hann var tólf ára gamall. Þá sagði hann ennfremur að hann hefði verið starfsmannastjóri Wikileaks, nokkuð sem Kristinn sagði síðar að væri ósatt.
Siggi er með nokkrar kærur á bakinu. Meðal annars er honum gefið að sök að hafa skipulagt lífvarðanámskeið sem fólk skráði sig til þátttöku á og greiddi háar upphæðir fyrir. Námskeiðið var aldrei haldið. Sjálfur hafnar Siggi þessum ásökunum í samtali við Vísi.
„Hvernig getur verið að þetta hafi ekki verið haldið þegar það á að halda námskeiðið í júní?" spyr Siggi þegar hann er inntur eftir viðbrögðum vegna málsins. Hann segir að það standi til að halda námskeiðið.
Siggi segir um yfirheyrslur FBI að hann hafi sjálfviljugur rætt við fulltrúa alríkislögreglunnar hér á landi vegna málsins. Þá heldur hann því ennfremur fram í samtali við Vísi að hann fái greitt fyrir að vera uppljóstrari.
Heimildarmaður sem Vísir ræddi við fullyrðir að Siggi hafi fengið 4000 dollara greidda fyrir harða diska úr tölvum fyrir um ári síðan. Það er um hálf milljón á núverandi gengi. Þetta rímar við það sem Siggi segir og sýnir ennfremur að hann virðist vera uppljóstrari FBI frekar en að hann hafi haft réttarstöðu grunaðs manns.
Eins og kunnugt er synjaði innanríkisráðherrann, Ögmundur Jónasson, alríkisfulltrúunum um réttarbeiðni til þess að athafna sig hér á landi vegna meintrar tölvuárásar sem var yfirvofandi. Engu að síður athöfnuðu mennirnir sig hér á landi í fimm daga eftir að þeim var synjað um heimildina. Þeir ræddu svo við Sigga daglega þessa fimm daga á fimm mismunandi hótelum. Eftir að ráðuneytið kom þeim skilaboðum áleiðis til fulltrúanna að þeir væru ekki velkomnir hér á landi fór Siggi, þá nítján ára gamall, með þeim til Washington í Bandaríkjunum þar sem viðtölin héldu áfram. Síðar hitti hann þá einnig í Danmörku.
Spurningarnar alríkisfulltrúanna snéru helst að Julian Assange og Wikileaks. Svo virðist sem áherslan hafi ekki verið á rannsókn vegna yfirvofandi tölvuárás hér á landi.
Siggi segir að hann hafi ekki verið færður til yfirheyrslu vegna kæra varðandi fjárdrátt.