Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari Íslands í fótbolta, teflir fram mjög sókndjöfru liði í vináttulandsleiknum á móti Rússlandi á Spáni í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19.30 og er í beinni á Stöð 2 Sport sem og hér á Boltavaktinni á Vísi.
Kolbeinn Sigþórsson, Gylfi Þór Sigurðsson, Eiður Smári Guðjohnsen og Alfreð Finnbogason eru allir í byrjunarliði Íslands og er þetta í fyrsta sinn sem það gerist.
Argentínumenn heimsækja Svía á sama tíma og Íslendingar mæta Rússum. Alejandro Sabella, þjálfari Argentínu, er í sömu stöðu og Lars þar sem bestu leikmenn argentínska landsliðsins spila framarlega á vellinum.
Sabella tekur sömu "áhættu" og Lars og prófar mjög sókndjarft lið. Lionel Messi, Ángel di María, Gonzalo Higuaín og Sergio Agüero eru allir í byrjunarliði Argentínumanna í kvöld.
Argentínumenn stilla upp "eins" og Íslendingar í kvöld
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
