Fótbolti

Arsenal steinlá á heimavelli

Kroos fagnar marki sínu.
Kroos fagnar marki sínu. Nordic Photos / Getty Images
Bayern München er komið með annan fótinn í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir 1-3 útisigur gegn Arsenal í kvöld. Sigur þýska liðsins var sannfærandi.

Það tók gestina aðeins nokkrar mínútur að komast yfir er Kroos átti þrumuskot frá vítateig sem söng í netinu.

Yfirburðir Bayern í fyrri hálfleik voru með hreinum ólíkindum. Karlmenn gegn guttum. Müller bætti öðru markinu við með skoti af stuttu færi og Bayern hefði getað skorað fleiri mörk í fyrri hálfleik.

Arsenal að sama skapi heillum horfið og átti ekki eitt einasta skot sem fór á markið í hálfleiknum.

Heimamenn fengu þó mark á silfurfati í upphafi síðari hálfleiks. Hornspyrna og Neuer fór í glórulaust úthlaup. Varnarmenn Bayern einnig sofandi því boltinn skoppaði í miðjum teignum áður en Podolski skallaði hann í netið. Það sem meira er þá átti Arsenal aldrei að fá þetta horn. Boltinn fór af Podolski og út af en sprotadómarinn var ekkert að láta vita af því.

Arsenal sýndi vígtennurnar í kjölfarið og komst nálægt því að jafna. Það var því mikið högg fyrir liðið er Mandzukic skoraði þriðja mark þýska liðsins.

Lahm sendi inn í teiginn. Mandzukic og Sagna spörkuðu báðir í boltann sem fór hátt upp í loft og þaðan í netið. Talsverður heppnisstimpill á þessu marki.



vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×