Íþróttavöruframleiðandinn Nike hefur sagt tímabundið upp samningi sínum við frjálsíþróttakappann Oscar Pistorius. Suður-Afríkumaðurinn er sakaður um að hafa myrt kærustu sína að yfirlögðu ráði.
AP-fréttastofan vísar í yfirlýsingu sem íþróttavörurisinn sendi frá sér í gær. Nike fetar í fótspor gleraugnaframleiðandans Oakley sem gerði hið sama á mánudag.
Nike sagði upp samningi við hjólreiðakappann Lance Armstrong í október 2012 þar sem ljóst þótti að hann hefði gerst sekur um notkun ólöglegra lyfja. Aukinheldur mat fyrirtækið það svo að Armstrong hefði haldið lyfjanotkun sinni leyndri fyrir fyrirtækinu í áratug.
Nike, sem er með höfuðstöðvar í Portland á vesturströnd Bandaríkjanna, stóð þó þétt við hlið Tiger Woods er upp komst um framhjáhald hans árið 2009. Woods fór í meðferð við kynlífsfíkn sinni.
Í yfirlýsingunni frá Nike segir að það muni fylgjast grannt með framvindunni í máli Pistorius.
