Vitni segja hávaðarifrildi hafa heyrst frá íbúðinni áður en byssuskot heyrðust. Eftir fyrsta byssuskotið hafi kvenrödd öskrað og síðan hafi fleiri skotum verið hleypt af. Eitt skothylki fannst á ganginum, en þrjú inni á baðherberginu sjálfu.
Lögreglumaðurinn Hilton Botha, sem var fyrstur á staðinn og fer fyrir rannsókn málsins, sagði í dómssal að svo virðist sem skotið hafi verið úr byssu spretthlauparans niður á við, og leiðir þannig að því líkur að Pistorius hafi staðið á gervifótum sínum þegar hann skaut Reevu. Sjálfur sagði Pistorius að hann hafi ekki fest á sig fæturna, og staðið á stubbunum þegar hann skaut.

Þá hefur lögreglan undir höndum vitnisburð knattspyrnumanns sem segir Pistorius hafa hótað að brjóta á honum fæturna. Einnig er minnst á atvik á Kyalami-kappakstursvellinum, þar sem Pistorius er sagður hafa lent í rifrildi við mann, og hótað honum ofbeldi í kjölfarið.
Botha talar einnig um atvik í janúar, þar sem Pistorius var sagður hafa hleypt af byssu inni á veitingastað. Í kjölfarið hafi hann beðið vin sinn að taka á sig sökina vegna þess að atvikið gæti annars valdið fjölmiðlafári, sem vinurinn gerði.
Yfirheyrslur halda áfram í dag og sagt verður nánar frá þeim síðar í dag.