Handbolti

ÍR mun sigurstranglegra þó hefðin sé með Stjörnunni

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Ingimundur og félagar fóru í gegnum Hauka á leið sinni í Höllina
Ingimundur og félagar fóru í gegnum Hauka á leið sinni í Höllina Mynd/Valli
ÍR og Stjarnan mætast í úrslitum Síma bikars karla í handbolta í dag klukkan 13:30 í Laugardalshöll. Flestir búast við því að ÍR sem leikur í N1 deild karla eigi að vinna Stjörnuna sem leikur í 1. deild nokkuð örugglega.

ÍR fór nokkuð létt í úrslit með því að rúlla yfir 1. deildarlið Selfoss í undanúrslitum á föstudaginn. Á sama tíma kom Stjarnan mjög á óvart með því að leggja Akureyri að velli í hörku leik.

ÍR hefur einu sinni sigraði bikarkeppni HSÍ. Það var árið 2005 þegar bikarkeppnin hét SS-bikarinn. ÍR sigraði þá HK í úrslitum 38-32 en Ingimundur Ingimundarson sem nú leikur á ný með ÍR var þá í lykilhlutverki hjá liðinu. Þetta sama ár stigu Björgvin Þór Hólmgeirsson og Davíð Georgsson sín fyrstu skref með ÍR án þess þó að setja mark sitt á liðið að neinu ráði.

Stjarnan hefur fjórum sinnum sigraði bikarinn, aðeins Valur (8), Haukar (6), Víkingur (6) og FH (5), hafa unnið bikarinn oftar og má því segja að hefðin sé með Stjörnunni. Stjarnan vann bikarinn 2006 og 2007 en síðustu fimm árin hafa Valur og Haukar séð um að landa bikarnum.

Þá er spurning hversu langt hefðin getur fleytt Stjörnunni. Liðið er að mestu leyti ungt og óreynt en leikstjórnandi liðsins í dag, Guðmundur Guðmundsson, var ungur leikmaður í liði Stjörnunnar sem varð bikarmeistari 2007.

Félagið Stjarnan þekkir að vinna titla en ungir leikmenn liðsins sem leikur í 1. deild þekkja það ekki af eigin raun og má búast við ÍR sé of stór biti fyrir liðið. Það sama var þó sagt um Fram og Akureyri sem Stjarnan lagði á leið sinni í úrslitaleikinn og því ljóst að allt getur gerst og þá ekki síst ef ÍR heldur að þetta komi að sjálfu sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×