Enski boltinn

Hafði áhyggjur af tyrkneska dómaranum fyrir leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cuneyt Cakir.
Cuneyt Cakir. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, tjáði sig örlítið um tyrkneska dómarann Cuneyt Cakir á sínum fyrsta blaðamannafundi sínum eftir tapið á móti Real Madrid í Meistaradeildinni.

Cuneyt Cakir rak Nani útaf á 56. mínútu þegar Manchester United var 1-0 yfir og í góðum málum. Real Madrid skoraði tvö mörk manni fleiri og tryggði sér sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

„Ég hafði áhyggjur af dómaranum fyrir leik og lét starfsfólk mitt vita af því," sagði Sir Alex Ferguson. „Ég hafði miklar áhyggjur en þetta er búið og gert. Við getum ekkert gert í þessu núna," sagði Ferguson.

Cakir hefur rekið útaf sjö leikmenn enskra liða en hann hefur aftur á móti aldrei rekið útaf leikmann í liði sem er að spila við enskt lið.

Þegar Sir Alex var spurður beint út í rauða spjaldið hjá Nani þá svaraði hann að það væri erfitt að halda trú sinni á leiknum þegar dómari tekur slíkar ákvarðanir.

„Þetta er í þriðja sinn sem við dettum út vegna ákvörðun dómara. Það er ekki auðvelt að sætta sig við slíkt en við verðum bara að halda áfram. Þetta var einn dagur til viðbótar í sögu félagsins þó hann hafi ekki ekki góður dagur. Mitt starf felst í því að rífa upp mannskapinn fyrir leikinn á móti Chelsea á sunnudaginn," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×