Handbolti

Alfreð Örn tekur við liði í einni bestu deild heims

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð Örn Finnsson.
Alfreð Örn Finnsson. Mynd/Anton
Alfreð Örn Finnsson mun í sumar taka við þjálfun norska úrvalsdeildarfélagsins Storhamar en hann er nú þjálfari Volda.

Á undanförnum tveimur árum hefur Alfreð stýrt Volda með góðum árangri. Liðið spilar í C-deildinni og tapaði í umspili um sæti í B-deildinni í fyrra. Í ár er liðið á toppi síns riðils með fullt hús stiga eftir 22 leiki.

Þessi góði árangur hefur vakið athygli stóru liðanna í Noregi en úrvalsdeildin þar í landi er ein sú sterkasta í heimi.

Storhamar er nú í fimmta sæti deildarinnar með 22 stig en á undanförnum árum tvívegis lent í þriðja sæti.

„Við leituðum að nýjum þjálfara í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Íslandi," sagði Erik Stensrud, framkvæmdarstjóri Storhamar, við norska fjölmiðla.

„Storhamar mun spila álíka handbolta og við höfum gert hingað til - sóknarsinnaðan bolta með unga og vel þjálfaða leikmenn. Alfreð hentar vel til þess."

„Alfreð er ekki þekkt nafn meðal þjálfara í Noregi en við erum þess fullvissir að hann sé rétti maðurinn fyrir okkur."

Alfreð þjálfaði bæði Gróttu og ÍBV í efstu deild hér á landi með góðum árangri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×