Körfubolti

Haukakonur stöðvuðu sigurgöngu KR en eru samt úr leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Rósa Hálfdanardóttir
Margrét Rósa Hálfdanardóttir Mynd/Vilhelm
Haukakonur eiga ekki lengur möguleika á sæti í úrslitakeppninni þrátt fyrir sex stiga sigur á KR, 71-65, í Schenkerhöllinni á Ásvöllum í kvöld. KR-konur voru búnar að vinna níu leiki í röð fyrir leikinn.

Haukar urðu að treysta á það að Valskonur tækist ekki að vinna Keflavík á sama tíma en það gerði Valsliðið hinsvegar og því munar fjórum stigum á liðunum þegar aðeins ein umferð er eftir. Haukar geta því ekki lengur náð 4. sætinu sem er það síðasta sem gefur sæti í úrslitakeppninni.

Siarre Evans var með 26 stig, 8 fráköst og 8 stoðsendingar hjá Haukum, Margrét Rósa Hálfdanardóttir skoraði 15 stig og Gunnhildur Gunnarsdóttir var með 13 stig og 7 fráköst. Shannon McCallum var með 24 stig og 13 fráköst hjá KR og Sigrún Ámundadóttir bætti við 19 stigum.

KR-liðið byrjaði vel og var 18-13 yfir eftir fyrsta leikhlutann. Haukakonur spiluðu frábærlega í öðrum leikhlutanum sem þær unnu 30-11 og náðu með því fjórtán stiga forskoti fyrir hálfleik, 43-29.

KR tókst reyndar að vinna upp muninn í seinni hálfleik og komast yfir í 63-61 þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir. Haukakonur voru hinsvegar sterkari á lokamínútunum sem þær unnu 10-2 og tryggðu sér sigur.



Haukar-KR 71-65 (43-29)

Haukar: Siarre Evans 26/8 fráköst/8 stoðsendingar, Margrét Rósa Hálfdanardóttir 15/4 fráköst, Gunnhildur Gunnarsdóttir 13/7 fráköst, Dagbjört Samúelsdóttir 10/5 fráköst, Auður Íris Ólafsdóttir 3, Lovísa Björt Henningsdóttir 2, María Lind Sigurðardóttir 2.

KR: Shannon McCallum 24/13 fráköst/6 stoðsendingar/5 stolnir, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 19/8 fráköst, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 6/10 fráköst, Rannveig Ólafsdóttir 5, Helga Einarsdóttir 5/10 fráköst, Sara Mjöll Magnúsdóttir 4, Björg Guðrún Einarsdóttir 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×