Fótbolti

Alfreð upp að hlið Atla Eðvalds

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Finnbogason
Alfreð Finnbogason Mynd/Nordic Photos/Getty
Alfreð Finnbogason skoraði í gær sitt 21. deildarmark í hollensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili þegar hann hjálpaði Heerenveen að vinna 2-0 sigur á Feyenoord og er Alfreð nú í 2. til 3. sæti yfir markahæstu leikmenn deildarinnar.

Alfreð komst með þessu marki upp að hlið Atla Eðvaldssonar á listanum yfir þá Íslendinga sem hafa skorað flest mörk á einu tímabili í efstu deild í Evrópu.

Atli Eðvaldsson skoraði líka 21 mark fyrir Fortuna Düsseldorf tímabilið 1982 til 1983 en Atli skoraði þessi mörk í 34 leikjum. Alfreð var hinsvegar aðeins að spila sinn 25. deildarleik í gær.

Pétur Pétursson á metið en hann skoraði tveimur mörkum meira en Alfreð og Atli tímabilið 1979-1980. Alfreð hefur skorað fimm mörk í síðustu fimm leikjum og er til alls líklegur í að bæta met Péturs.



Flest deildarmörk íslensks leikmanns á einu tímabili í efstu deild í Evrópu:

23 - Pétur Pétursson, Feyenoord 1979-1980

21 - Alfreð Finnbogason, Heerenveen 2012-2013

21 - Atli Eðvaldsson, Fortuna Düsseldorf 1982-1983

19 - Arnór Guðjohnsen, Anderlecht 1986-87

19 - Teitur Þórðarson, Lens 1981-82

18 - Arnar Grétarsson, Lokeren 2002-03

18 - Veigar Páll Gunnarsson, Stabæk 2006




Fleiri fréttir

Sjá meira


×