Handbolti

Verður Kári rekinn frá Wetzlar?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kári Kristján í leik með Wetzlar.
Kári Kristján í leik með Wetzlar. Nordic Photos / Getty Images
Þýska dagblaðið Giessener Allgemeine greinir frá því í dag að forráðamenn Wetzlar eru afar óánægðir með að Kári Kristján Kristjánsson hafi spilað með íslenska landsliðinu í gær.

Kári Kristján gekkst undir aðgerð í febrúar þar sem góðkynja æxli var fjarlægt úr baki hans. Síðan þá hefur hann ekkert spilað með Wetzlar og segir greinarhöfundur að forráðamenn liðsins hafi ekki átt von á því að hann myndi geta spilað aftur fyrr en í maí.

Kári spilaði stórt hlutverk í sigri Íslands gegn Slóveníu í gær. Hann kom Íslandi yfir, 28-27, í fyrsta skipti í leiknum þegar tvær mínútur voru eftir og gaf svo á Guðjón Val Sigurðsson er hann tryggði Íslandi sigur í lokasókn sinni í leiknum.

Kári hafði reyndar snúið sig á ökkla í fyrr í leiknum og var greinilega haltur þegar hann spilaði lokamínúturnar.

Í áðurnefndri grein er því haldið fram að það hafi komið forráðamönnum Wetzlar gjörsamlega í opna skjöldu að sjá nafn Kára Kristjáns á leikskýrslu. Hann hafi aðeins fengi leyfi til að fara til Íslands í þeim tilangi að fá meðhöndlun hjá læknum landsliðsins.

Þá er einnig fullyrt að það hefði staðið til í marga mánuði að fjarlægja æxlið áður en það var loksins gert. Ástæðan fyrir því að það hefði dregist er sögð vera sú að Kári vildi spila með landsliðinu á Ólympíuleikunum í sumar og HM í janúar.

Samningur Kára Kristjáns við Wetzlar rennur út í sumar og fer hann þá til Bjerringbro/Silkeborg. Það er þó ekki útilokað, samkvæmt grein blaðsins, að samningi Kára verði rift þar sem forráðamenn liðsins telja á sér brotið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×