Körfubolti

Löng og leiðinleg bið eftir alvöru leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pálína í leik með Keflavík.
Pálína í leik með Keflavík. Mynd/HAG
Úrslitakeppni Domino's-deildar kvenna hefst í kvöld en hún hefst nú strax í undanúrslitum.

Deildarmeistarar Keflavíkur mæta Val í sinni rimmu en þessi lið hafa átt athyglisverða leiki í vetur. Pálína Gunnlaugsdóttir, leikmaður Keflavíkur, hefur engar áhyggjur af vanmati í sínu liði.

„Ég hef engar áhyggjur af værukærð. Valur hefur sýnt okkur í vetur að þetta er gott lið. Það hefur unnið okkur tvisvar en við þær þrisvar. Þetta eru bara tvö góð lið sem eru að mætast," sagði Pálína.

„Við þurfum fyrst og fremst að spila góða vörn til að vinna þessa rimmu, enda hef ég alltaf sagt að vörn vinni titla. Ég held að við þurfum fyrst og fremst að verja okkar körfu og passa að þær skori minna en við."

Keflavík var búið að tryggja sér deildarmeistaratitilinn fyrir nokkru síðan og verður því leikurinn í kvöld sá fyrsti í langan tíma sem skiptir verulegu máli.

„Þetta hefur verið leiðinleg bið. Síðustu fjórir leikirnir okkar voru eins og æfingar fyrir okkur. Yngri leikmenn fengu að spila og Siggi þjálfara var að skoða ýmsa hluti."

„Ég er samt ánægð með fyrirkomulagið í deildinni enda spilum við núna fleiri leiki en áður. Þetta hefði getað verið spennandi allt fram í lokaumferð en þannig spilaðist deildin ekki í þetta skiptið."

Hún hefur ekki áhyggjur af sínu liði fyrir leik kvöldsins. „Við höfum æft stíft og við höfum verið á uppleið."

Snæfell og KR eigast við í hinni rimmunni en fyrstu leikirnir í báðum rimmum hefjast klukkan 19.15 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×