Scott hefur aldrei áður sigrað á risamóti í golfi en komst skuggalega nálægt því á Opna breska meistaramótinu á síðasta ári. Hann átti frábæran endasprett í kvöld og tryggði sér sigurinn á tíundu holu, þeirri annarri í umspili við Angel Cabrera, með frábæru pútti.
„Það er ótrúlegt að vera í þessari stöðu,“ sagði Scott sem viðurkenndi að vera vel meðvitaður um hungur Ástrala eftir sigur á Masters.
„Algjörlega. Ég reyni að hugsa ekki um svoleiðis hluti. Ég reyndi bara að spila eitt högg í einu í dag. Ástralar eru stoltir þegar kemur að golfinu. Þetta var eini titillinn sem okkur vantaði. Það er stórkostlegt að það hafi komið í minn hlut að landa titlinum,“ sagði Scott.

„Greg Norman er sá sem við lítum allir upp til. Hann á stóran hluta í þessum titli,“ sagði Scott sem virkaði með stáltaugar á lokaholum hringsins sem og í bráðabananum.
„Að setja þessi pútt til að tryggja sér sigur er stórkostleg tilfinning.“