Handbolti

Logi búinn að lofa að negla á markið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Vilhelm
„Pásan var svolítið löng útaf landsleikjahlénu. En það er gott að geta safnað kröftum," segir Daníel Freyr Andrésson markvörður FH.

Daníel Freyr var kjörinn besti leikmaður umferða 15-21 á hófi hjá HSÍ á fimmtudaginn. Hann reiknar með spennandi einvígi gegn Fram. „Þetta verður hnífjafnt og kæmi ekki á óvart ef þetta færi í oddaleiki."

FH-ingar höfnuðu í 2. sæti deildarinnar og hafa fyrir vikið heimavallaréttinn gegn Fram. Vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslitin.

„Ég gæti trúað að heimavallarétturinn gæti reynst dýrmætur. Það er frábært að spila í fullum Krikanum eins og hann verður vonandi í úrslitakeppninni. Það var ólýsanleg stemmning í Krikanum 2011 þegar við fengum 3000 menn í Krikann. Svoleiðis viljum við hafa það," segir Daníel.

En hvað þurfa FH-ingar að óttast hjá þeim bláklæddu úr Safamýrinni?

„Þeir eru með frábæra einstaklinga og hafa verið að smella saman eftir áramót. Þessir þrír fyrir utan, Siggi (Sigurður Eggertsson), Jói (Jóhann Gunnar Einarsson) og Robbi (Róbert Aron Hostert) hafa verið að spila virkilega vel," segir Daníel.

Allir leikmenn FH eru klárir ef frá er talinn Logi Geirsson sem tók fram skóna á nýjan leik í vetur eftir langvarandi meiðsli.

„Logi er búinn að lofa því að fara að negla á markið í úrslitakeppninni. Hann verður að standa við það!"

Leikur FH og Fram verður í beinni textalýsingu hér á Vísi klukkan 15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×