Veiði

Næturveiði: Ákvörðun endurskoðuð í lok sumars

Trausti Hafliðason skrifar
Veitt við Vatnskot á Þingvöllum.
Veitt við Vatnskot á Þingvöllum. Mynd / Trausti Hafliðason
Sú ákvörðun að heimila næturveiði í Þingvallavatni verður endurskoðuð í lok sumars. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þingvallanefnd.

Eins og flestum veiðimönnum er kunnugt hugðist Þingvallanefnd banna næturveiði í Þingvallavatni í sumar. Eftir mikil mótmæli veiðimanna og fundarhöld nefndarinnar með fulltrúum veiðimanna var þessi ákvörðun dregin til baka. Það var formlega gert á fundi nefndarinnar á föstudaginn.

Í dag sendi Þingvallanefnd frá sér yfirlýsingu með yfirskriftinni „Næturveiði heimil í landi þjóðgarðsins í sumar". Veiðivísir birtir hér yfirlýsinguna í heild sinni (millifyrirsagnir eru á ábyrgð Veiðivísis):

„Þjóðgarðurinn á Þingvöllum,  Landsamband stangaveiðifélaga og Veiðikortið hafa gert með sér samkomulag um að bæta veiðimenningu við Þingvallavatn með auknu eftirliti og fræðslu á komandi veiðitímabili sem hefst  1. maí. Þingvallanefnd heimilar að nýju stangveiði um nætur í landi þjóðgarðsins í sumar enda sameinist aðilar um að taka upp eftirlit um nætur til að koma megi í veg fyrir veiðiþjófnað, notkun ólöglegrar og skaðlegrar beitu, slæma umgengni, ónæði og drykkjuskap."

Sérstök veiðinámskeið við vatnið

„Um er að ræða sameiginlegt verkefni þar sem allir aðilar leggja sitt af mörkum til að þessi árangur náist samkvæmt nánari verkaskiptingu. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum, sem hefur sinnt veiðivörslu að degi til, tekur upp eftirlit við vatnið um nætur og eykur upplýsingastreymi til veiðimanna svo sem á skiltum, heimasíðu og í fjölmiðlum.

Veiðimenn úr hópi félagsmanna stangaveiðifélaga leggja næturvörslunni lið, félögin hvetja á heimasíðum, Facebook-síðum, í tímaritum og fréttabréfum til góðrar umgengni og virðingar við Þingvallavatn og aðra gesti þjóðgarðsins. Veiðikortið leggur til ákveðinn fjölda veiðikorta sem umbun fyrir framlag félaganna. Enn fremur verður efnt til sérstakra veiðinámskeiða við vatnið, bæði fluguveiði- og kastnámskeiða."

Leggja grunn að bættri veiðimenningu

„Aðilar setja á laggirnar samstarfshóp sem mun útfæra ofangreint verkefni. Starfshópurinn lýkur störfum á næstu dögum þannig að fyrirkomulag og verkaskipting liggi fyrir við upphaf veiðitímabilsins.

Aðilar árétta að með þessu er ekki aðeins lagður grunnur að bættri veiðimenningu í þjóðgarðinum heldur er efnt til samstarfs þjóðgarðsins og veiðimanna um verndun Þingvallavatns sem haldið verður áfram til lengri tíma.

Jafnfram eru aðilar sammála um að endurskoða ofangreindar ákvarðanir og fyrirkomulag að loknu veiðitímabilinu 2013."

trausti@frettabladid.is






×