Eins og menn muna kannski eftir hafa Orri Vigfússon og Þórir Grétar deilt með okkur hugleiðingum sínum um hvar þeir myndu verja síðasta veiðideginum. Næstur segir sína sögu Árni Friðleifsson, varaformaður SVFR. Gefum Árna orðið.
Þegjandi á Harley Davidsson í Laugakvörn.
Ég vakna í Þrándargili, veiðihúsinu í Laxá í Dölum, það er hvergi betra að sofa en þar. Ég ligg örlítið í svefnrofanum og hugsa um hvort að laxarnir sem ég sá í gærkvöldi hafi látið sig renna upp í á. Það er miður júlí og á stórsteyminu undir miðnætti í gær sat ég niður við ós, dolfallinn og horfði á stórar laxatorfur þefa af ferksvatninu sínu, einhverjir laxar létu vaða og fóru upp úr Matarpolli og áfram upp í Papa, ég vona að félagar þeirra hafi ákveðið að elta. Öll þessi hugsun ýtir mér framúr, næsta verkefni er að vekja son minn Emil en hann er með mér á þessum síðasta veiðidegi mínum, betri veiðifélaga er ekki hægt að hafa.
Eftir morgunmat förum við niður í Þegjanda. Ef mér skjátlast ekki þá er eitthvað af nýrenningum sem ég sá kvöldið áður komnir í Þegjanda . Við setjumst þegjandi niður og horfum á Þegjanda. Það er bara gott vatn í ánni, þetta hefur jú verið rigningarsumar. Þarna stökk einn, hann er mættur. Emil fer yfir og veiðir Þegjanda Búðardalsmegin, ég sit þegjandi og horfi á hann veiða, þetta er bara gaman. Allt í einu sé ég að Emil er búinn að setja í einn, ég velti fyrir mér hvaða flugu hann hefur sett undir, Skröggur eða Kolskeggur er ekki ólíkegt, hann þreytir fiskinn fagmannlega, hvaðan ætli hann hafi það ? Skyndilega er ég ekki einn, Jón Egilsson bóndi á Sauðhúsum er kominn í heimsókn, við sitjum og horfum á Emil landa fallegum nýrunnum hæng, sá fær að fara út í aftur til félaga sinna. Eftir gott spjall við Jón þar sem umræðuefnið er eingöngu veiði kveð ég hann og glotti út í annað, Jón skilur glottið í mér, hann er veiðimaður og veit að glottið er merki um að ég ætli að taka nokkur köst. Ég veiði Þegjanda austanmegin, set undir pínulitla Madalein. Eftir örfá köst er ráðist á fluguna með offorsi, vá hvað þetta er frábært. En flugan situr ekki kyrfilega föst og þessi losaði sig sjálfur, það er allt í lagi því Þegjandi er fullur af fiski og ég sest niður og horfi á Emil setja í annan fisk, mér finnst það eiginlega skemmtilegast.
Það er komið hádegishlé. Ég sest uppá Harley Davidson mótothjólið mitt og keyri i gegnum Miðdali með vindinn í fangið, öflugt hjólið fer létt með Bröttubrekku og áður en ég veit af er ég kominn niður í Norðurárdal. Norðuráin blasir við mér, það er ekki að ástæðulausu að það sé talað um hana sem fegurst áa. Í veiðihúsinu við Rjúpnaás tekur Guðmundur Viðarsson matreiðslumeistari á móti mér, við heilsumst einsog alltaf, á einu faðmlagi. Hann hefur eldað plokkfisk handa mér. Guðmundur fékk víst 11 í einkunn á plokkfiskprófinu í Hótel og veitingaskólanum. Eftir þennan snilldar hádegismat rölti ég niður að Myrkhylsrennum og veð þar yfir, ég er á leiðinni niður í Laugakvörn. Það er svo sérstakt að þennan síðasta veiðidag minn er stærsta laxaganga sumarsins einmitt að skríða frá Stokkhylsbroti upp Stokkinn og inn í Laugakvörn. Ég sest á náttúrulegan grasbekkinn á bakkanum og fylgist með silfurpílum þjóta í gegnum Laugakvörn og dagdraumar eru skammt undan. Hugurinn leitar víða og óneitanlega verður mér hugsað til þeirra skemmtilegu kynna sem ég hef haft í gegnum tíðina við bæði veiðimenn og konur, því þetta sport snýst jú alltaf á endanum um mannleg samskipti. Ég ríf mig harkalega inn í veruleikann aftur, það er náttúran í mér sem kallar, ég verð að veiða, helst 365 daga ársins og í dag er einmitt dagurinn sem alla veiðimenn þráir að upplifa, rétt hitastig, hæfilegur vindur, ekki of skýjað, ekki of bjart og það sem mestu máli skiptir gott vatn, semsagt hinn fullkomni dagur.
Laugakvörn er full af laxi, ég byrja á að setja litla orange Kröflu, kasta línunni, sé að hún leggst fallega, menda einu sinni og læt reka, já já ólga undir flugunni, kasta aftur menda tvisvar og læt reka og já hann er á. Vænn smálax hefur ákveðið að togast á við mig. Eftir skemmtilega orrustu er ljóst að ég er sigurvegarinn í þetta skiptið. Í virðingarskyni við mótherjann fer smálaxinn aftur til félaga sinna og á vonandi eftir að bjóða fleiri veiðimönnum upp í dans.
Það er komið að hættutíma, ég geng áleiðis upp í veiðihús, sé að sólin er einnig að hugsa um að hvíla sig. Þetta var frábær dagur og jafnvel ég heyri líkt og Þórir Grétar að Nökkvi segir amen á eftir efninu...eða var það Harley Davidson?
svavar@frettabladid.is

