Enski boltinn

Pellegrini má fara í lok tímabilsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Spænska liðið Malaga hefur staðfest að Manuel Pellegrini, stjóra liðsins, er frjálst að fara frá félaginu í lok tímabilsins.

Pellegrini hefur verið sterklega orðaður við Manchester City á Englandi en liðið rak nýverið Roberto Mancini úr starfi knattspyrnustjóra.

Fjölmiðlar á Spáni greindu frá því strax á föstudagskvöldið að Mancini yrði rekinn og Pellegrini myndi taka við. Það virðist líklegasta lausnin nú.

Samkvæmt fjölmiðlum í Malaga hefur félagið samþykkt að losa hann Pellegrini undan samningi sínum við félagið, þó svo að hann eigi tvö ár eftir af samningi sínum. Malaga mun hafa samþykkt að fara ekki fram á greiðslu fyrir Pellegrini en samkvæmt samningnum hefði það kostað fjórar milljónr evra að rifta honum.

Malaga var nálægt því að komast í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu en féll úr leik í fjórðungsúrslitum eftir dramatíska viðureign við þýska liðið Dortmund. Liðið er í sjötta sæti spænsku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×