Handbolti

Titillinn í húfi þegar Alfreð og Guðmundur mætast

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kiel getur orðið Þýskalandsmeistari í handbolta í átjánda skipti takist liðinu að leggja Rhein-Neckar Löwen að velli á heimavelli sínum í kvöld. Leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Alfreð Gíslason stýrir sem kunnugt er liði Kiel sem hefur þriggja stiga forskot á Ljónin frá Mannheim sem Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfar. Með sigri yrði munur liðanna fimm stig en Löwen ætti aðeins tvo leiki eftir. Kiel yrði Þýskalandsmeistari í áttunda skiptið á níu árum.

Kiel lagði Löwen 28-17 í fyrri leiknum en tapið var það fyrsta á tímabilinu hjá Löwen sem hafði byrjað leiktíðina með látum.

Aron Pálmarsson, Guðjón Valur Sigurðsson og Alexander Peterssen verða væntanlega í góðum hlutverkum hjá liðum sínum í kvöld. Félagaskipti Alexanders yfir til Löwen voru á dögunum valin þau bestu á leiktíðinni af vefnum handball-planet.

Alfreð Gíslason og Guðmundur Þórður spiluðu um árabil saman með íslenska landsliðinu auk þess sem þeir deildu lengi herbergi á ferðalögum liðsins.

Leikurinn hefst klukkan 18.10 og er í beinni á Stöð 2 sport & HD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×