Handbolti

Selfyssingar í samstarf við Rhein-Neckar Löwen

Stefán Árni Pálsson skrifar
Handknattleiksdeild Selfyssinga hefur gert samkomulag við þýska stórliðið Rhein-Neckar Löwen um samstarf. Efnilegir leikmenn liðsins gætu átt kost á því að fara til æfinga til stórliðsins, en Guðmundur Guðmundsson er þjálfari Rhein-Neckar Löwen.

Einnig er möguleiki á því að leikmenn Selfoss fara til æfinga hjá B-liði Löwen sem leikur í þýsku 3. deildinni.

Selfoss hefur í nokkur ár rekið einskonar handboltaakademíu í samstarfi við Fjölbrautaskóla Suðurlands þar sem lagt er upp með faglega þjálfun í bland við nám. Leikmenn handboltaliðsins mega til að mynda ekki neita áfengis og menn þurfa leggja sig alla fram til að ná sem lengst í íþróttinni.

Samstarf við klúbb eins og Rhein-Neckar Löwen getur reynst gríðarlega mikilvægt fyrir félag eins og Selfoss.

Í samtali við sunnlenska.is sagði Gunnar Gunnarsson þjálfari Selfoss:

„Þetta er að sjálfsögðu gríðarlegur heiður og virðing sem Guðmundur Guðmundsson og Rhein-Neckar Löwen eru að sýna því uppbyggingarstarfi sem verið hefur í gangi á Selfossi undanfarin ár, bæði hjá félaginu og akademíunni í FSu. Hér er um að ræða eitt stærsta félag Evrópu og mér vitandi hefur ekkert íslenskt lið náð að komast í svo náin tengsl við annað eins stórlið.“

„Rhein-Neckar Löwen rekur mjög öflugt starf fyrir leikmenn sextán ára og eldri og það er hefð fyrir þessu starfi hjá félaginu. Félagið lítur í kringum sig, bæði í Þýskalandi og annarsstaðar, að ungum of efnilegum leikmönnum og þetta er liður í því að gefa íslenskum afburðaleikmönnum tækifæri til að æfa með okkur. Ef þeir eru nógu góðir þá geta þeir mögulega æft með aðalliðinu í skamman tíma, eða þá með B-liðinu eða yngri liðum,“ sagði Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Rhein-Neckar Löwen, í samtali við sunnlenska.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×