„Messi er besti leikmaður heims og hundurinn minn er besti hundur í heimi. Þess vegna gaf ég honum nafnið Messi,“ segir Isco, nýjasti leikmaður Real Madrid.
Isco sló í gegn með spænska U-21 landsliðinu á EM í Ísrael í sumar og var keyptur frá Malaga til Rael Madrid fyrir háa upphæð. Isco var einnig sterklega orðaður við Manchester City.
Leikmaðurinn hefur þó áður lýst yfir aðdáun sinni á Barcelona og leikmönnum á borð við Xavi og Andres Iniesta. Enn fremur hefur hann látið frá sér að hann væri ekki hrifinn af Real Madrid þar sem honum þætti félagið of hrokafullt.
Enn á formlega eftir að ganga frá félagaskiptum Isco en það verður gert í næstu viku eftir að leikmaðurinn klárar læknisskoðun hjá Madrídingum.
