Fótbolti

Guardiola brjálaður út í Börsunga

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vilanova (t.v.) og Guardiola.
Vilanova (t.v.) og Guardiola. Nordicphotos/Getty
„Ég sagði forsetanum og forráðamönnum Barcelona að ég ætlaði í 6000 km fjarlægð og bað þá um að láta mig í friði. Þeir hafa ekki staðið við orð sín," sagði Pep Guardiola, þjálfari Bayern München, á blaðamannafundi í gær.

Guardiola sagðist vera afar ósáttur yfir því að vera sakaður um að hafa ekki reynt að heimsækja Tito Vilanova, fyrrum aðstoðarmann sinn og núverandi þjálfara Barcelona, þegar Vilanova var í krabbameinsmeðferð í New York.

„Ég stóð mína plikt hjá Barcelona og ákvað að halda annað. Ég vil að þeir haldi áfram að einbeita sér að vinnu sinni og óska þeim alls hins best. Þeirra árangur yrði einnig minn. Ég þarf ekki að útskýra tilfinningar mínar gagnvart félaginu," sagði Guardiola.

Bæjarar eru við æfingar við Guardavatnið á Ítalíu þar sem Guardiola svaraði spurningum blaðamanna.

„Þeir hafa farið einum of oft yfir strikið," sagði Guardiola. „Ég mun aldrei gleyma því að þeir nýttu sér veikindi Tito til að koma höggi á mig," sagði Guardiola.

Sá spænski nýtti tækifærið og ræddi dvöl sína í New York þegar hann, þrátt fyrir allt, heimsótti Vilanova.

„Ég hitti hann einu sinni. Ástæða þess að ég sá hann ekki oftar var sú að það var ekki mögulegt. Sökin var ekki mín. Að halda því fram að ég hafi ekki viljað allt hið besta fyrir félaga minn til margra ára er til skammar. Ég átti ekki von á því," sagði Guardiola.

Hann skoraði á Sandro Rosell, forseta Barcelona, og aðra stjórnarmenn að svara sér ef þeir töldu sig vera að ljúga því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×