Abeba Aregawi, sem er fædd í Eþíópíu en keppir fyrir Svía, tryggði sér í kvöld glæsilegan sigur í 1500 metra hlaupi á HM í frjálsum íþróttum í Moskvu. Þetta voru fyrstu gullverðlaun Svía á mótinu.
Aregawi kom í mark á 4:02.67 mínútum en í öðru sæti var Jennifer Simpson frá Bandaríkjunum sem hljóp 1500 metrana á 4:02.99 mínútum. Hellen Onsando Obiri frá Kenía tók síðan bronsið.
Abeba Aregawi hefur verið með sænskt ríkisfang frá því í júní 2012 en hún er 23 ára gömul og varð Evrópumeistari innanhúss í sömu grein fyrr á þessu ári. Aregawi varð í fimmta sæti á Ólympíuleikungum í London fyrir ári síðan en þá keppti hún ennþá fyrir Eþíópíu.

